Skúli Páls

Sub specie temporalis

07.07.2016 09:36

22.03.2016 16:28

Eftirminnilegir kennarar (5) Páll Skúlason

 

Oft er ég spurður hvort ég sé skyldur Páli Skúlasyni. Sannleikurinn er að við erum ekkert skyldir þótt við séum skánafnar. Þegar ég kem fram til að tala um heimspeki þarf ég ævinlega fyrst að taka þetta fram. Hinsvegar minnist ég yfirleitt ekki á að við erum andlega skyldir.

Það eru víst 35 ár síðan ég sá Pál fyrst. Þá nam ég íslensk fræði við Háskólann en var skikkaður í heimspekileg forspjallsvísindi sem hann kenndi. Hann var áhrifamikill kennari og meðal annars fyrir hans áhrif ákvað ég að skipta um stefnu og taka heimspeki sem aðalgrein. Á þeim tíma var heimspeki lítið fag í Háskólanum. Í inngangsnámskeiðum sátu kannsi 20 nemendur. Við heyrðum mikið um skiptingu heimspekinnar í tvær stefnur: meginlandsheimspeki og þessa engilsaxnesku. Okkar nám fylgdi engilsaxneska straumnum; flestir kennararnir komu úr því umhverfi. Nema Páll Skúlason sem var lifandi talsmaður frönsku og þýsku hefðarinnar.

Sem kennari hafði Páll lag á að leiða mann inn í viðfangsefnið en skilja mann svo eftir svo nauðsynlegt var að finna eigin leiðir. Fyrir suma er þetta pirrandi, fyrir aðra verður það opinberun. Ég fór ekki í svo mörg námskeið hjá honum. Þau sem ég man eru inngangur að heimspeki, málstofa um Sigurð Nordal og málstofa um Heidegger. Þegar við lásum heimspekilegar ritgerðir Sigurðar Nordal hafði Páll enga ákveðna túlkun til reiðu handa okkur. Hann benti okkur á fyrirmyndir Sigurðar og hliðstæður í heimspekisögunni en annars voru leiðbeiningar hans helst: Lesa sem mest og hugsa sjálf sömu hugsanir og höfundurinn.

Okkur var hent í djúpu laugina í námskeiðinu um Heidegger. Við lásum mikilvægar ritgerðir hans og rökræddum endalaust. Ég þóttist sjá að þessir textar væru svo einkennilegir að ekki væri nóg að lesa enskar þýðingar eins og vaninn var, maður yrði að kynnast þessu á frummálinu. Þannig að ég náði mér í nokkra frumtexta og orðabók og hamaðist þetta vormisseri við að snúa Heidegger á íslensku. Sú glíma varð örugglega til þess að ég gat hafið háskólanám í Þýskalndi árið eftir án þess að lenda í vandræðum með tungumálið.

Við vissum að Páll var það sem Þjóðverjarnir kalla „hegelianer“. Hann minntist oft á Hegel og talaði stundum um hvernig öllu má finna stað í kerfi Hegels; hvað sagan er mikilvæg, allt á sér sögu. Þegar hann mætti í samkvæmi heimspekinema var mikil skemmtun að ræða við hann um eilífðarmálin: tilgang lífsins, líf eftir dauðann, Guð, ástina, réttlæti. Eftir á sér maður hvernig aðferð hans í þessum samræðum var alltaf hegelsk.

Eitt man ég vel sem hann sagði: Hann var spurður um hvernig hann vildi hafa heimspekina. Hann svaraði að hann vildi heimspeki út um allt, hann sá fyrir sér að alls staðar væru umræðuhópar, í skólum, á vinnustöðum, heimilum, stofnunum; alls staðar. Þetta er líka í anda Hegels. Og þegar ég horfi til baka sé ég að þessi hugsjón hefur orðið verkefni mitt í heimspeki.

Meðan ég var í doktorsnáminu átti ég hauk í horni þar sem Páll var. Hann skrifaði handa mér meðmælabréf þegar ég sótti um styrk til að dvelja við rannsóknir í Köln. Þegar þangað var komið rann upp fyrir mér að ég yrði að gefa gestgjöfum mínum einhverja gjöf og eina viðegandi gjöfin væri þýska sérprentunin á ritgerð Páls, „Hugleiðingar við Öskju“. Gallin var að þetta litla kver var uppselt. Þá hafði ég samband við Pál og hann útvegaði mér eintak úr sínum fórum. Efnið sem ég vann að var nokkurskonar útlegging á þessari ritgerð. Þegar ég sýndi Páli uppköst mín og ræddi við hann var eins og ég fyrst hitti einhvern sem skildi mig. Hann lánaði mér glænýja ritgerð eftir sjálfan sig sem hafði birst erlendis um svipað efni og benti mér á mikilvæga bók sem hafði farið fram hjá mér og ræddi við mig um í hvaða átt mín rannsókn þyrfti að fara.

Fyrir nokkrum árum hvöttu menn sem ég tek mark á mig til að þýða eitthvað eftir Hegel og tiltóku sérstaklega formálann að Fyrirbærafræði andans. Þar kom að ég hafði tíma og var í stuði og tók til við það verk. Það kostaði átök, heilabrot, stanslausar uppflettingar í orðabókum og samanburð við þýðingar á önnur mál. Loks var ég þó nógu ánægður til að sýna einhverjum. Þá var bara einn maður á öllu Íslandi sem ég taldi dómbæran á verkið og það var auðvitað Páll Skúlason. Þannig að ég labbaði út í Háskóla með eintak af þýðingunni og bankaði á skrifstofunni hans. Hann var þá ekki við. Maðurinn við hliðina sagði að hann væri veikur og ekki alveg víst hvenær hann kæmi aftur en þegar hann frétti erindið bauðst hann til að koma handritinu til skila.

Nokkrum dögum síðar hringdi Páll í mig. Ég var á gangi úti á götu á leið úr Blóðbankanum. Hann hafði fengið handritið og bar lof á þýðinguna, ræddi um nauðsyn þess að gefa hana út. Hann sagðist ekki geta hitt mig í bili því hann væri á spítala að fá blóð. Ég sagði honum hvaðan ég væri að koma og þá fór ekki fram hjá honum möguleikinn á að hann væri að þiggja blóð sem ég hefði gefið. En jafnvel þótt svo hefði verið þá var mér ljóst að ég hafði þegið meira af honum. Skömmu síðar frétti ég að hann væri dáinn.

 

 

---

Myndin af Öskju fengin að láni frá Wikipediu.

01.03.2016 23:43

Ævisaga Alexanders Humboldt

The Invention of Nature: The Adventures of Alexander von Humboldt, the Lost Hero of ScienceThe Invention of Nature: The Adventures of Alexander von Humboldt, the Lost Hero of Science by Andrea Wulf
My rating: 5 of 5 stars

Þessi bók batt saman fyrir mér marga þræði sem ég hafði ekki áttað mig á að tengdust. Lengi baukaði ég við að kortleggja hugmynd sem kemur fram í verkum rómantískra skálda, og sumra heimspekinga, um einingu allrar náttúru, um að andi og efni séu eitt og að maðurinn skynji uppruna andans í villtri náttúru. Tilgáta mín var að slík hugmynd sé hreyfiafl náttúruverndarumræðu á Íslandi. Ég þóttist hafa komið auga á hvernig þessi hugmynd þróaðist á nýöld upp úr fornri heimspeki og nýju sjónarhorni á náttúru sem kom til með þýsku hughyggjunni.

Humboldt (1769–1859) var talinn mesti vísindamaður heims á sinni tíð. Svo féll hann í skugga af öðrum sem unnu enn stærri afrek og gleymdist. Í venjulegri bók um hugmyndasögu nú til dags er ekki langur kafli um hann. En allir þræðir liggja til hans. Sem ungur maður lærði hann af Kant og Goethe hvernig ætti að horfa á náttúrna. Aðrir tileinkuðu sér hans sýn. Darwin hafði bækur hans með sér á siglingunni með Beagle umhverfis jörðina og þaullas þær. Ralph Waldo Emerson, Thoreau og John Muir, mennirnir sem mótuðu bandaríska orðræðu um náttúruvernd, voru allir undir áhrifum frá honum. Enn ein tenging sem ég uppgötvaði: Ernst Hackel (1834–1919), sem skrifaði metsölubækur um vísindi á fyrri hluta 20 aldar var undir miklum áhrifum frá Humboldt. Ein frægasta bók Haeckels (Welträtsel) var alltaf á skrifborði Brynjólfs Bjarnasonar sem reyndi í öllum bókum sínum að útfæra grunnhugmynd hennar um einingu í náttúrunni.

Humboldt var einn af þessum risum: Leiðangurinn um Suður-Ameríku var afrek og ótrúlega spennandi ævintýri. Hans aðferð við að skoða náttúruna ruddi brautina fyrir þróunarkenninguna og landrekskenninguna. Hann má kallast höfundur vistfræði.

View all my reviews

29.01.2016 22:08

Stór söguleg skáldsaga

Profeterne i EvighedsfjordenProfeterne i Evighedsfjorden by Kim Leine
My rating: 5 of 5 stars

Stór söguleg skáldsaga, með þeim stærstu í norrænum bókmenntum: við hliðina á Íslandsklukkunni, Det Gode Haab eftir Heinesen og vesturfarasögunum og hinum sögulegu skáldsögunum eftir Moberg.

Kaupmannahöfn 18. aldar, höfuðborg Íslands á þeim tíma, lifnar við. Þarna er umhverfið sem margir Íslendingar lifðu og hrærðust í. Söguhetjan, Morten Pedersen Falck, er norskur en hefði getað verið Íslendingur. Við upplifum árekstur menningarheima þegar Danir gera Grænland að nýlendu. Við upplifum náttúru Grænlands, róður á skinnbát milli óralangra fjarða, vetramyrkrið, lúsina, skyrbjúg, viðleitni prestsins og kaupmannsfrúarinnar til að búa til agnarlítið einkaútibú af vestrænni menningu í stofu kaupmannsins.

Við verðum vitni að mótspyrnu innfæddra gegn nýlenduveldinu, fyrst trúarlegri og svo veraldlegri, þegar sértrúarsöfnuður kemur sér fyrir í Eilífðarfirði. Í eftirmála telur höfundur upp nokkrar heimildir sem hann fór eftir. Ég náði mér í eina þeirra. Þar kemur í ljós að sagan um sértrúarsöfnuðinn er í höfuðdráttum sönn. Ef eitthvað er þá hefur veruleikinn verið furðulegri og ótrúlegri en skáldsagan.

View all my reviews

29.12.2015 16:32

Um rétta speki og syndsamlegar vellystingar

Heinrich Heine þekkjum við sem yndislegt ljóðskáld, en hann var ekki síðri prósahöfundur. Hér er kafli úr nýlegri þýðingu:

Í maí 1433, þegar haldið var kirkjuþing í Basel, gekk hópur af geistlegum mönnum skógarstíg þar í grenndinni, prelátar og doktorar og munkar af öllum gerðum. Þeir dispúteruðu guðfræðileg álitamál, gerðu greinarmun á hinu og þessu, rökræddu og rifust um annötur, expektatífur og reservasjónir eða rannsökuðu hvor væri meiri heimspekingur, Tómas frá Akvínó eða Bonaventura, eða hvað ætli ég svosem viti! En allt í einu, mitt í sínum dogmatísku og abströktu samræðum, setti þá hljóðan. Þeir stóðu kyrrir líkt og þeir hefðu skotið rótum við blómstrandi linditré. Í því sat næturgali og söng og galaði fegurstu tónaljóð svo undur blíð og mild. Um lærdómsmennina hríslaðist einhver undrasæla, inn í hjörtu þeirra, samanklúsuð af skólaspeki, þrýstu sér hlýir vortónar, með þeim vöknuðu tilfinningar af sleni og vetrardvala og þeir horfðu glaðir og forviða hver á annan; – þangað til einn þeirra tók til máls með þeirri skarplegu athugun að hér væri ekki allt með felldu, að þessi næturgali kynni allt eins að vera djöfull, að þessi djöfull vildi með sínum unaðslegu hljóðum tefja þá frá þeirra kristilegu samræðum og ginna þá til vellystinga og annarra sætra synda. Hann tók til við að særa, líklega með þeim formála sem þá tíðkaðist: adjuro te per eum, qui venturus est, judicare vivos et mortuos o.s.frv. Sagt er að þegar fuglinn heyrði þessar særingar hafi hann ansað: „Já, víst er ég illur andi!“ og svo flogið burt; þeir sem söng hans heyrðu munu hinsvegar þegar þann sama dag hafa veikst og skömmu síðar dáið. 

 

Úr bókinn Saga trúar og heimspeki í Þýskalandi eftir Heinrich Heine

26.10.2015 20:49

Skilgreining ástarinnar

Í gær var rætt um kærleika í Heimspekikaffihúsinu og mér datt í hug hvort gamla ættjarðarljóðið eftir Jón Trausta sé ekki þokkaleg skilgreining á honum. Í fyrstu línu segir „ég vil elska mitt land“ og hinar línurnar eru svo nánari skýring á hvað felst í þvi að elska:

Ég vil elska mitt land,
ég vil auðga mitt land,
ég vil efla þess dáð, ég vil styrkja þess hag.
Ég vil leita' að þess þörf,
ég vil létta þess störf,
ég vil láta það sjá margan hamingjudag.

Þessi skilgreining passar ekki bara við ættjarðarástina heldur gæti hún lýst ást foreldra til barna eða ást á maka. „Ég elska þig“ þýðir samkvæmt því bæði „ég vil hugsa um þinn hag“ og „ég vil láta þig sjá margan hamingjudag“.

14.10.2015 17:23

Afi minn á Ísafirði og vísurnar hans

Þetta er maðurinn sem ég heiti eftir: Skúli Þórðarson, skipa­smiður á Ísafirði. Fæddur 1902, dáinn 1996. Þegar ég var lítill púki var ég stundum á Ísafirði hjá afa og ömmu. Nú þegar ég er fullorðinn geri ég mér ekki grein fyrir hvað það var lengi, hvort það voru örfáir dagar eða hvort ég dvaldi þar mánuðum saman. En ég á sterkar minningar frá Ísafirði. Ég man vel húsið þeirra við Sundstræti 13: stofuna, eldhúsið, baðkarið, kjallarann þar sem afi smíðaði og geymdi allskonar verkfæri. Ég man vel bílinn hans og ferðir með honum í berjamó og í gegn um gatið á leiðinni til Súðavíkur. Þegar ég fæddist kom amma suður til að hjálpa mömmu og til er mynd af ömmu haldandi á mér nýfæddum. Ég man vel jarðarförina þegar ég tók þátt í að sökkva kistu afa míns í frosna jörð. 

Eitt sem ég man vel er þegar afi sat í miðju hóps og fór með vísur og sagði sögur. Sumar vísurnar lærði ég um leið og nokkrar kann ég enn þótt ég hafi bara heyrt þær einu sinni og hafi aldrei séð þær skrifaðar. Mér finnst að þetta hafi gerst alstaðar þar sem hann kom. Ég sat venjulega í ytri hring og hlustaði þótt ég skildi ekki fyndnina.

Í níræðisafmælinu hans var ég fyrir vestan og þá fór hann með nokkrar vísur sem hann orti þegar amma dó. Um leið heyrði ég að þær voru sannur skáldskapur. Þvi miður lærði ég þær ekki en þær munu hafa birst í héraðsblaði fyrir vestan og ég vonast til að finna þær.

Afi var líka kvæðamaður, hann kunni að kveða rímur. Aldrei heyrði ég hann kveða en Hallfreður Örn Eiríksson og hans samstarfsfólk tók upp viðtöl við hann þar sem hann heyrist kveða. Sumt af því má heyra á http://www.ismus.is/.

Einhvern tíma fór ég sjálfur að búa til vísur án þess að gera mér grein fyrir hvaðan þessi árátta kæmi. Og nú hef ég safnað þeim sem mér finnst skástar. Þær eru nógu margar til að fylla litla bók og nógu góðar til að ég held þeim að vinum mínum. „Allt hefi ég frá öfum mínum“ segir Jónas. Nú þegar ég horfi á vísnasafnið sem mér finnst nógu frambærilegt til að bjóða það öðrum hugleiði ég hvort það eigi ekki að vera tileinkað afa mínum.

02.08.2015 18:36

Dulhyggja á 13. öld

Stundum hef ég sett hér brot úr þýðingum sem ég er að fást við. Sumt hefur það verið undarlegt en eftirfarandi texti er sá undarlegasti. Þetta er annar kafli í fyrstu bókinni í Streymandi ljós guðdómsins eftir Mechthild von Magdeburg (1207–1282). Þetta er lýsing á samfundum sálarinnar við Guð, það sem kallað hefur verið unio mystica. Textinn er óskiljanlegur frá venjulegu sjónarmiði en frá öðru sjónarmiði alveg tær og augljós. Það mætti hafa langt mál um samhengi hans við guðfræði, heimspeki og bókmenntir miðalda en við sleppum því núna og við skulum hlusta á Mechthild sjálfa:

Um þrjár persónur og um þrjár gjafir

Guðs sönn kveðja sem kemur þar úr himneskum straumi úr brunni streymandi þrenningar, hún er svo kröftug að hún sviptir líkamann öllu afli sínu, og gerir sálina opinbera sjálfri sér svo að hún sjái sjálfa sig eins og heilagir og öðlast þá guðlegan ljóma, þá skilur sálin við líkamann með öllum mætti sínum, visku, ást og þrá; aðeins minnsti hlutinn af lífi hennar verður eftir í líkamanum eins og í sætum svefni. Þá sér hún einn heilan Guð í þrem persónum. Svo heilsar hann henni á máli hirðarinnar sem ekki heyrist hér í þessu eldhúsi og klæðir hana með þeim klæðum sem skal fara í til hallarinnar og gefur sig henni á vald. Þá getur hún beðið og spurt eins og hún vill, allt verður henni sagt. Það sem henni hefur enn ekki verið sagt, það er fyrsta gjöfin af þremur. Svo fer hann með hana á leynilegan stað. Þar þarf hún ekki að biðja fyrir neinum né spyrja því hann vill bara leika við hana leik sem líkaminn veit ekkert um og ekki heldur þorpsbúar við plóginn né riddari í burtreiðum né hans elskaða móðir María, þau kunna ekki þann leik. Svo svífa þau á unaðsríkan stað sem ég get hvorki tala mikið um né vil. Það er of háskalegt, ég þori það ekki því ég er mjög syndug manneskja. En þegar endalaus guð fer með grunnlausa sálina í hæðina þá glatar hún jarðríkinu vegna þessa undurs og hún veit ekki af því að hún hafi nokkru sinni komið í jarðríki. Þegar leikurinn er allra bestur þá verður að hætta. Þá talar hinn blómstrandi guð: Jómfrú, þér verðið að hneigja yður. Þá verður hún hrædd: Herra, nú hefur þú fært mig alla leið hingað svo að ég get ekki lofað þig í líkama mínum með nokkrum hætti, nema ef ég þoli útlegð mína og stríði gegn líkamanum. Þá segir hann: Ó, elsku dúfa, rödd þín er eyrum mínum strengleikur, orð þín eru krydd munni mínum, þrá þín er gjöf náðar minnar. Þá segir hún: það verður að vera eins og gestgjafinn býður. Svo andvarpar hún með öllu afli svo að líkaminn bifast. Þá segir líkaminn: Ó, frú, hvar varstu? Þú kemur svo elskuleg aftur, svo fögur og sterk, frjáls og sinnisrík. Umbreyting þín hefur svipt mig bragðskyni mínu, ró, litarafti og öllum mætti. Þá segir hún: Þegi þú, morðingi, láttu klögumál þín niður falla; ég ætla alltaf að gæta mín á þér, að óvinur minn sé særður, það truflar okkur ekki, það gleður mig.

Þetta er kveðja, hún hefur margar æðar, hún þrýstist út úr streymandi guði í hinar fátæku þurru sálir alla tíma með nýrri þekkingu og nýrri sýn og í sérlegri nautn hinnar nýju nærveru. Eia, sæti guð, brennandi innra, blómstrandi ytra; nú hefur þú gefið þeim smæsta, þá vildi ég líka læra um lífið sem þú hefur gefið þínum mestu, til þess vildi ég kveljast lengur. Þessa kveðju getur enginn og mun enginn fá nema hann sé yfirkominn og orðinn að engu. Í þessari kveðju vil ég lifandi deyja; því fá blindir heilagir aldrei spillt. Það eru þeir sem elska en þekkja ekki.  

28.07.2015 14:59

Uppáhaldsstaðir í Biblíunni (1)

Áður en lengra er haldið verð ég að taka fram að ég hef ekki lesið Biblíuna alla og er ekki Biblíufróður maður. Biblían hefur orðið á vegi mínum eins og margar bækur. Í hillunni minni er hún innan um Grimms ævintýri, Íslendingasögur, Plató, Kant og fleira. En þegar maður hefur áhuga á sögu hugsunarinnar, sögu heimsmyndanna, og fer að átta sig á að okkar heimsmynd og okkar hugsun á sér sögu, þá fer ekki hjá því að maður þurfi stundum að fletta upp í þessari bók. Einhvern tíma einsetti ég mér að lesa hana alla og hafði þolinmæði í nokkrar vikur til að vinna að því markmiði en náði því samt ekki frekar en mörgum öðrum. Ástæðan var að ég entist ekki í langar upptalningar á regluverki Gyðinga. Það er eins og að ákveða að lesa reglugerðir Evrópusambandsins. 

Nú ætla ég samt að telja upp nokkra staði í þessari bók sem ég hef staðnæmst við og sem mér finnst merkilegir. Sá fyrsti er upphafið, það er varla hægt að hugsa sér tilkomumeira upphaf á bók:

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: „Verði ljós.“

Og það varð ljós.

Það sem mér finnst merkilegt hér er þetta: Áður en til var ljós var til orðið „ljós“. Upphafsorð Jóhannesarguðspjalls enduróma þessa hugsun: „Í upphafi var orðið“. Mér finnst boðskapurinn vera þessi: Áður en hlutirnir voru til voru til orðin um þá. Þess vegna eru til orð fyrir alla hluti. Allt hefur nafn. Ekkert er nafnlaust og þessvegna er hægt að tala um allt. Allt er skiljanlegt. Ekkert í tilverunni er utan marka tungumáls. Ég er ekki viss um að þessi boðskapur sé sannur. Kannski er tilveran þvert á móti óskiljanlegt. Kannski er margt í heiminum sem við getum aldrei komið orðum að vegna þess að það er í eðli sínu ósegjanlegt. 

Auk þess mun nákvæmari lestur á kaflanum leiða í ljós galla á túlkun minn. Nokkrum línum síðar er talað um að Guð skapi fyrst hluti og ákveði svo hvað þeir eiga að heita. Og nokkrum línum þar fyrir neðan segir frá hvernig Guð felur manninum að gefa öllum sköpuðum hlutum heiti. Hvað sem því líður þá höfðar þessi kafli til mín vegna þess að hann tjáir í goðsögn skoðun sem ég aðhyllist óháð honum (þó að ég hafi rétt áðan játað að hún kunni að vera ósönn): að allir hlutir séu aðgengilegir skilningnum, í heiminum er ekkert sem ekki er hægt að finna viðeigandi heiti á.

17.07.2015 10:14

Japanskar vísur

1

Á snjólausa jörð

sáldrar reynitré um allt

hvítu blómdufti

 

2

Endalaust blátt haf

viti á ysta kletti

í sólar ljósi

 

3

Hvaðan kemur þú

alda til að elta mig

langt upp í fjöru?

 

4

Með gulum ilmi

lýsir appelsína upp

herbergið okkar

 

5

Kirsuberjatré!

Æ, hvernig hefurðu það

í íslenskri mold?

16.06.2015 11:46

Immanuel Kant sem barnakennari

 

Árið 1748 var Immanuel Kant 24 ára, nýtúskrifaður úr háskóla, foreldrar hans nýlega fallnir frá og hann blankur. Hann hafði þegar birt fræðilega ritgerð en kaus að skrifa hana á móðurmálinu í staðinn fyrir latínu sem þýddi að hún gaf enga punkta í framgangskerfi háskólans. Þá réð hann sig í vinnu sem heimiliskennari hjá séra Daníel Andersch sem þjónaði húgenottum sem flúið höfðu trúarofsóknir í Frakklandi. Séra Andersch átti fimm syni og Kant kennti þremur þeirra. Heimildir geta um að þrisvar var hann guðfaðir barna meðan hann dvaldi á heimilinu. Hann var í þrjú ár hjá þessari fjölskyldu og réð sig þá sem heimiliskennara hjá ríkum aðalsmanni að nafni von Hülsen. Þar kenndi hann börnunum í nokkur ár. Við sem horfum til baka þurfum að gera okkur grein fyrir stéttaskiptingu og að á þessum tíma var heimilsikennarinn í stétt með vinnufólki í húsinu. Kant var þó í nógu miklu áliti til að hann varð heimilisvinur og var boðinn í mikilvæg fjölskylduboð eftir að hann var farinn. Drengirnir sem hann kenndi bjuggu síðar hjá honum þegar þeir fóru í háskólann í Königsberg. Kant var barnakennari í sex ár. 1754 sneri hann aftur til háskólans síns og skilaði fljótlega ritgerðum á latínu sem tryggðu honum prófgráður og loks prófessorsstöðu. Efni þeirra hlýtur hann að hafa hugleitt meðan hann starfaði sem barnakennari en í þessum fyrstu ritgerðum má finna vísi hugmynda sem áttu eftir að bylta hugsuninni.

Hvernig barnakennari ætli Kant hafi verið? Ætli hann hafi verið utan við sig sérvitringur sem þoldi ekki börn en vildi bara fá næði til að hugsa um forskilvitleg skilyrði þekkingar? Hann virðist sjálfur hafa litið þannig á því hann sagðist hafa verið hryllilegur kennari. Nemendur hans og foreldrar þeirra voru þó á öðru máli því þau mátu hann mikils. Meðan hann kenndi var Emile eftir Rousseau ekki komin út en síðar á ævinni varð hún meðal uppáhaldsbóka hans. Rousseau trúði að maðurinn sé góður innst inni og að hann þurfi einungis svigrúm til að þroska hæfileika sína.

Við fáum kannski smá vísbendingu með því að lesa bók hans um uppeldisfræði sem hann skrifaði að vísu löngu síðar en hlýtur að byggjast á kennslureynslu hans. Þar mælir hann til dæmis með einni ákveðinni kennslubók, Orbis pictus (eða Heimur í myndum) eftir Comenius, þann sama og menntaáætlanir Evrópusambandsins heita eftir. Í þessari bók eru myndir af öllu og svo texti undir á þremur tungumálum. Svona bækur hafa þann kost að þeir sem ekki kunna að lesa, eða eru seinlæsir, geta skoðað myndirnar og giskað á hvað standi í textanum. Hér fyrir ofan sést bókin sem Kant mælti með fyrir 200 árum.

14.03.2015 10:51

Hvernig er að vera Finni?

Mér var gefin bók í gær: Kalevala í nýlegri þýðingu á sænsku. Alveg óvænt fékk ég í lok annasamrar vinnuviku uppfyllta gamla ósk. Kalevala hefur verið mér hugleikið þó að ég hafi hvorki vit né tíma til að sinna því eins og vert væri. Fyrir nokkrum árum las ég þetta mikla kvæði bæði á íslensku og ensku. Ég skrifaði um það á gamla bloggið mitt, en það virðist horfið í eitthvert gleymskudjúp. Mig langaði að ímynda mér hvernig kvæðið hljómaði á frummálinu í eyrum Finna. Slíkt er bara ómögulegt að ímynda sér því ég er ekki Finni og skil ekki orð í finnsku. Sömuleiðis var ég ekki dómbær á þessar tvær þýðingar sem ég las. Þær voru nokkuð ólíkar: Íslenski þýðandinn, Karl Ísfeld, gerði ýmsar bragfræðikúnstir sem mér fannst að hlytu að vera á kostnað nákvæmni. Enski þýðandinn bjó til sinn eigin brag (með þrem áherslum í línu í staðinn fyrir fjórar). Báðar þessar leiðir í þýðingum hafa sína kosti en mig grunaði að önnur fórnaði nákvæmni og hin tónlistinni í ljóðinu. 

Fyrr í vetur fékk ég tækifæri til að kynnast Kalevala á nýjan hátt þegar ég söng í kórnum sem sem flutti söguna um Kullervo við tónlist Sibelíusar með Sinfóníuhljómsveitinni. Það var líklega það næsta því sem ég kemst því að upplifa hvernig ljóðið hljómar í eyrum Finna. Tónlistin þýðir ljóðið á sammannlegt tungumál og Sibelíus náði örugglega að láta innstu merkingu þess hljóma. 

Greinilega var samt óleysanleg þraut að heyra kvæðið eins og Finni heyrir það. Mér datt í hug að Svíar væru kannski aðeins nær því en við og kannski kæmist ég einu skrefi nær upprunalega ljóðinu ef ég læsi það á sænsku. Í dag hverf ég því aftur inn í goðsagnaheim þar sem kappar og máttugar meyjar ganga um skóga og fara á skíðum um víðar heiðar.

10.12.2014 20:48

Ásgrímur Jónsson og afi minn

 

Hér er enn ein mynd sem til var á æskuheimili mínu: Kiðárbotnar í Húsafelli eftir Ásgrím Jónsson. Ein minning tengist henni sérstaklega. Hún er um það að afi minn frá Ísafirði var í heimsókn. Ég hef kannski verið tíu ára. Afi virti myndina fyrir sér og kunni ekki að meta hana. Það sem ég man að hann setti helst út á hana var að þessi blái litur væri ekki í náttúrunni, staðurinn í Húsafelli sem myndin er af væri ekki svona blár. Ég held að ég hafi verið sammála honum. Og er það eiginlega enn þó að ég hafi síðan þá séð málverk eftir impressjonista og expressjonista og fleiri og lesið um hvernig þeim fannst að ætti að mála náttúruna. Stundum hef ég í samræðum um myndlist sagt frá þessari myndlistargagnrýni afa míns.

Afi minn var alþýðumaður og ég hugsa að hann hafi verið listhneigður á þann hátt sem mögulegt var í hans tilveru, hann var hagyrðingur og kvæðamaður. Faðir hans, Þórður Grunnvíkingur Þórðarson, var alþýðuskáld. Hann kom einu sinni til Reykjavíkur, það var 1913, þá hefur afi minn verið ellefu ára. Í dagbók hans má lesa að þetta hefur verið menningarferð, m.a. skoðaði hann myndir eftir Thorvaldsen og Ásgrím. Einu sinni sagði ég frá kvæði eftir hann þar sem hann hefur greinilega haft myndir, einhverskonar myndabók ímynda ég mér, fyrir framan sig meðan hann orti. 

Það var ekki raunverulegt málverk eftir Ásgrím heima hjá mér heldur eftirprentun. Þessar eftirprentanir voru til á mörgum heimilum og sumstaðar enn. Allavega rakst ég á myndina nýlega á kaffihúsi í bænum og þessvegna rifjaðist hún núna upp.

Hver er nú lærdómurinn af þessum minningum. Enginn sérstakur. Samt eru einhverjir þræðir þarna sem fróðlegt væri að rekja.

 

 * * *

Myndina hér fyrir ofan fæ ég lánaða frá Gallerí Fold.

24.11.2014 19:04

Unnar Jón Kristjánsson 1966-2014

Við Unnar vorum nágrannar um skeið og síðan hefur mér oft orðið hugsað til hans. Sérstaklega þegar hefur þurft að gera við eitthvað. Hann var handlaginn, einlægt að smíða, laga og bæta. Af honum lærði ég heilmikið um viðhald húsa en líka dálítið um þá iðn að lifa lífinu.

Við eignuðumst um svipað leyti hvor sína hæðina í gömlu bárujárnshúsi. Það hafði verið byggt af vanefnum utan borgarmarkanna á fyrri hluta síðustu aldar þó að í kringum það væri komið gróið hverfi þegar við bjuggum þar. Í þessu húsi var að mörgu að hyggja. Verkefnin eru endalaus í gömlu húsi og það útheimtir stöðuga athygli og umhyggju. Unnar hafði forystu í þessu öllu. Alltaf kunni hann til verka, hvað sem þurfti að gera, hvort sem það voru smíðar, pípulagnir, múrverk eða garðyrkja. Ég varð nokkurskonar handlangari og lærlingur. Við fluttum inn í hrörlegan kofa. Smátt og smátt umbreyttist hann þó í snoturt hús, fallegt heimili og bæjarprýði. Við vorum sammála um að eitt hið nauðsynlegasta væri að útbúa sandkassa í garðinum. Það gerðum við eina kvöldstund. Unnar fór sér að engu óðslega en virti fyrir sér efniviðinn og staðinn sem valinn hafði verið. Þegar starfið hófst leyndi sér ekki að hann hafði þegar smíðað sandkassann í huganum, hugsað út í hverja spýtu, enda varð kassinn vönduð smíð sem enn stendur. Þannig gekk hann að hverju verki, stilltur og yfirvegaður, og fann alltaf leið til að bæta alla hluti. Sandkassinn varð lengi leiksvæði barnanna okkar og margra annarra í hverfinu.

Svona er minningin um Unnar: Hann var alltaf að bæta eitthvað. Það er ekki lítils virði í heimi þar sem alltaf er verið að skemma og eyðileggja. Slíkur maður gerir tilveruna auðugri og maður þakkar fyrir að hafa fengið að kynnast honum.

 

***

 

(Birtist í Morgunblaðinu í dag)

26.10.2014 19:40

Myndirnar sem maður er gerður úr

Þessa mynd hafði ég daglega fyrir augunum í bernsku. Hún rifjaðist upp í dag þegar myndlistarkona sem ég þekki talaði um að jafnvel þótt myndir séu abstrakt, semsagt ekki af neinu sérstöku, þá vilji vera í þeim þyngdarafl. Þessi mynd er þannig: ef henni er snúið á hvolf er hún allt öðru vísi. Einhverntíma held ég að við systkin höfum talað um hvernig hún ætti eiginlega að snúa. Ég horfði lengi á hana sem barn. Þegar ég leita hana núna uppi á netinu finn ég að hún er einhver þáttur í sálarlífi mínu. Þegar maður er ekki lengur barn fer maður að spá í úr hverju maður sé eiginlega gerður.

Þegar ég var lítill hafði ég ekki hugmynd um málarann, en löngu síðar frétti ég að hann heitir Svavar Guðnason. Einhverntíma sá ég líka mynd af Halldóri Laxness heima hjá sér og á bak við hann þessi mynd sem ég þekkti svo vel.

19.10.2014 19:50

Myndin og eftirmyndirnar

 

Það eru víst orðin nokkur ár síðan ég sökkti mér í Vincent Van Gogh, skoðaði myndirnar hans og las bréfin hans. Einu sinni bloggaði ég um þessa mynd hér fyrir ofan. Tilefnið var að eftirprentun af henni hékk á vegg heima hjá mér þegar ég var lítill. Þegar aðrar eftirmyndir urðu á vegi mínum löngu síðar fannst mér litirnir öðruvísi en ég mundi þá. Út frá þessum hugleiðingum tilkynnti ég að ég ætlaði að skoða frummyndina við fyrsta tækifæri. Málverkið sjálft er varðveitt í Helsinki og þangað hefur leið mín ekki legið fyrr en nú um daginn. Ég gerði mér ferð í Ateneum safnið þar sem ég tók þessa mynd með símanum mínum. Nú get ég sagt frá því að litirnir í frummyndinni eru bjartari en í gömlu eftirprentuninni, sérstaklega er hvíti flöturinn ljósari og gulu blómin í forgrunni skærari og grípa augað fastar heldur en í eftirmyndunum.

17.10.2014 18:58

Kvöldstund með rússneskum stjarneðlisfræðingum

 

Ég átti eftir að segja ykkur frá ferðalagi kórsins til Pétursborgar í Rússlandi um daginn. Þar er margt að sjá: keisarahallir, gulli slegna helgidóma, heimsins mesta listasafn, lystigarða með hugvits­samlegum gosbrunnum og margt fleira. Kórinn söng tónleika sína í frægum sal þar sem hvert sæti var skipað og þurfti að bera inn fleiri stóla; áheyrendur voru yndislegir, bros á hverju andliti. Þó að allt þetta hafi verið stórkostlegt var ekkert alveg jafn eftir­minnilegt og að dvelja kvöldstund á rússnesku heimili með merkilegu fólki. 

Þetta kom þannig til að vinur minn í kórnum á vin sem á vin í Péturs­borg. Hann hafði sagt við kór­félaga minn: „Péturs­borg? Þú verður að hitta vini mína þar, þau eru stjarneðlisfræðingar“. Þetta síðasta var spaug. Ungur maður, sem sagðist heita Pétur, sótti okkur félaga á hótelið og við spurðum hvort þau væru ekki stjarneðlisfræðingar. Pétur, sem er málfræðingur (sérfræðingur í fornarmensku nánar til tekið) og talaði reiprennandi ensku, svaraði að slíkt orðalag yrði að teljast í besta falli yfirmáta ljóðræn lýsing á fjölskyldu sinni. Þau væru ekki stjarneðlisfræðingar heldur listafólk. Hann gekk með okkur aðalstræti Pétursborgar, Nevsky Prospekt, og á leiðinni ræddum við uppruna indóevrópskra mála. 

Í hliðargötu nokkurri leiddi hann okkur upp stiga upp á efstu hæð þar sem fjöl­skylda hans býr: Sergei, Anna og yngri bróðir, Nikolai, sem líka er málfræðingur en sérhæfir sig í afrískum málum. Við báðum hann að kenna okkur nokkur orð í swahili sem hann gerði en ég hef því miður þegar gleymt. Þau tóku á móti okkur eins og aldavinum: buðu okkur kvöldverð og te sem mér þótti komið beint úr kvæðinu um Jevgení Onegin; vodka líka auðvitað. Það kom í ljós að Sergei þessi er ekki bara listamaður heldur líka seiðkarl; hann kann að syngja barkasöng (ef þið vitið ekki hvað það er má prófa að gúgla „throat singing“). Hann sýndi okkur listaverk sín og gaf okkur félögum frá Íslandi hvorum sinn hlut, merkileg lista­verk. Anna, konan hans, teiknar og málar og við fengum að sjá sýnishorn af hennar list líka. Hún sagði okkur að hennar foreldrar hefðu báðir verið listmálarar og sýndi okkur sýnishorn af verkum þeirra.

Ég sagði þeim að ég hefði undirbúið Rússlandsförina með því að lesa Jevgení Onegín eftir Pússkín; þó ég væri ekki læs á frummálið hefði ég lagt mig fram og lesið tvær mismunandi þýðingar á vestræn mál og hefði jafnvel íhugað að snúa þeim á mitt móðurmál. Þau töldu þetta góðan undirbúning. Sergei fór utanbókar með fyrsta erindið úr Jevgení Onegin. Þó töldu þau vonlaust að þýða ljóðið. Jafnvel þótt maður kynni frummálið væru allir orðaleikirnir og vísanirnar óþýðanlegar. Þetta viðhorf hafði ég heyrt áður. Rússar halda að enginn skilji þá, þetta sérrússneska sé ekki hægt að þýða. Þeir eru alveg eins og við að því leyti.

Þau Sergei og Anna hafa meðal annars búið til litabók. Í henni eru óvenjulegar myndir með flóknum formum. Sergei heldur því fram að formin og hlutföllin séu í einhverju sérstöku samhengi við skipulag alheimsins (það sem fornmenn kölluðu „samhljóm himinhvelanna“) og að hver sem liti myndirnar muni með því stilla huga og hönd í samræmi við alheiminn. Ég trúi því nú mátulega en ætla samt að láta nemendur mína lita nokkrar myndir og gá hvað gerist. 

Þau Sergei og Anna töluðu litla eða enga ensku. Þó gekk ljómandi vel allt kvöldið að tala saman: málfræðingurinn Pétur túlkaði stöðugt. Að skilnaði færðu þau okkur gjafir: litabókina og listaverk Sergeis. Ég fékk óvenjulega gjöf sem mér þótti mikið til um: seiðmannatrommu. Kannski hafið þið séð svona á myndum af seiðmanni (shaman) sem heldur á trommu í annarri hendi en lemur hana með hinni. Þessi er alvöru, smíðuð með viðeigandi galdraþulum. Ég var snortinn, þetta var eitthvað svo höfðinglegt að ég átti ekki orð. Ég flutti hana heim eins dýrasta postulín væri í töskunni. Ég áttaði mig á að ef Sergei væri 50 árum yngri þá væri hann í þungarokkhljómsveit og ég sá að réttur eigandi svona trommu væri eldri sonur minn sem hefur spáð bæði í samhljóm himinhvelanna og kaos allrar tilveru. Hann sá strax not fyrir trommuna og er nú þegar byrjaður að fremja galdur með henni. 

20.09.2014 23:13

Internet árið 1880

 

Undanfarið hef ég lesið sögurnar um Sherlock Holmes. Þær eru mátulegir krimmar fyrir mig. Þetta er eins og að hitta gamlan félaga því bækurnar um hann voru með því fyrsta sem ég las í fullorðinsdeildinni á bókasafninu. Nokkrum árum síðar voru þær með því fyrsta sem ég las af eigin hvötum á ensku. Sherlock Holmes og Watson eru nokkurskonar æskuvinir mínir. Áður en ég byrjaði á þessum lestri núna hefði ég ekki getað endursagt að gagni nokkra af þessum sögum. Samt eru þær þarna í minninu einhvers staðar því þegar ég les veit ég alltaf hvað gerist á næstu blaðsíðu.

Sögusviðið er mikilvægt: Lundúnir Viktoríutímans með rigningu, gasljósum, hestvögnum, pípuhöttum. Enginn réttarmeinafræðingur til að rannsaka DNA heldur Holmes með stækkunargler að rýna í fótspor og tóbaksösku. Eitt atriði kemur fyrir aftur og aftur: Söguhetjurnar eru í stanslausu sambandi við umheiminn; stöðugt er verið að senda bréf, manni skilst að þau séu borin út mörgum sinnum á dag og stundum er talað um sérstaka sendiboða sem bera bréf á milli. Ef ekki bréf, þá eru send símskeyti. Það er stöðugur gestagangur. Svo hafa þeir félagar alfræðibækur uppi í hillu þar sem þeir finna fróðleik um allt sem þeim dettur í hug. Þeir virðast auk þess áskrifendur margra dagblaða þar sem fluttar eru nákvæmar fréttir af öllum sakamálum. Auk þess birtast í blöðunum allskonar auglýsinagar frá einstaklingum um týnt og fundið og allt mögulegt bara. Ef marka má þessar sögur hafa dagblöð fyrir 130 árum verið eitthvað líkt og Facebook er núna. 

Stundum heyrir maður upphrópanir eins og: Hvernig var þetta eiginlega áður en internetið kom! Við sjáum kannski fyrir okkur einhverja gamla daga þar sem hver maður sat í sínu horni einangraður frá öllum öðrum. Nú veit ég ekki hversu áreiðanleg heimild um daglegt líf á 19. öld þessar sögur eru, og þó að þær væru raunsæ lýsing á Lundúnum sem var milljónaborg á þessum tíma, þá á lýsingin ekki við um minni pláss og afskekktari staði. Samt finnst mér athyglisvert að höfundurinn átti ekki í vandræðum með að lýsa samfélagi þar sem stöðugt aðgengi að öllum upplýsingum er staðreynd.

05.09.2014 21:35

Kínversk menning á Skjólbraut

„Nóg af mat!“ Þetta stendur á ísskápnum okkar með kínversku letri. Táknið er í senn fyrirheit, bæn og staðhæfing ef ég hef skilið rétt skýringar hins kínverska gests sem gaf okkur spjaldið. Þannig er það til komið að í viku hefur dvalið hjá okkur stúlka frá Taiwan en hennar fjölskylda var gestgjafi Snorra þegar hann fór þangað austur í boði Rotary hreyfingarinnar. Hún kynnti sér það helsta: Bláa lónið, Gullfoss, samkvæmislíf janfaldra í Reykjavík og fleira. Yfir kvöldmatnum eitt sinn í vikunni voru þessar tvær eyjar bornar saman, Ísland og Taiwan. Þá rifjaðist upp að ég á hér í hillu bók sem sameinar kínverska og íslenska menningu, nefnilega Ferlið og dyggðina eftir Lao Tse (einnig þekkt sem Bókin um veginn). Þar er frumtexti prentaður öðru megin á opnunni og íslenska þýðingin hinu megin. Gestur okkar þekkti bókina um leið og hún sá kápuna og las svo einn kafla upphátt fyrir okkur á frummálinu. Það þótt mér fróðlegt.  Þó að ég skildi ekki orð hef ég lesið textann í mismunandi þýðingum og brotið heilann um hvernig hann hafi upphaflega verið meintur. Ég er ekki frá því að maður nálgist raunverulega merkingu agnarögn þegar  maður heyrir hljóminn í töluðu máli.
 

30.08.2014 19:20

Um frumleg skáld og ófrumleg

Einu sinni bjó ég til vísu sem ég var sérlega ánægður með. Hún var ort á útmánuðum þegar dagarnir lengjast og sólin hækkar aðeins hvern dag og ég fylgdist með hvernig sólarlagið færðist smátt og smátt í vestur. Vísan var svona:

Sólin alltaf sýnist mér
seilast aðeins vestar,
hænufet til hægri fer
hún í dag og sest þar.

Þetta þótti mér snjallt. Sérstaklega var ég ánægður með rímið: vestar – sest þar. Það fannst mér hafa þennan létta, næstum kæruleysislega, hljóm sem tjáir bjartsýni manns þegar vorið nálgast. Daginn sem ég gerði þessa vísu og birti hana hróðugur á Facebook trúði ég að ég hefði fundið upp á þessu sjálfur. Ég var alveg ómeðvitaður um að þetta rím hafði áður verið notað í vel þekktu ljóði, ljóði sem ég hef þekkt frá því ég var unglingur og kann parta úr utan að, nefnilega Í Vesturbænum eftir Tómas Guðmundsson. Þar eru þessar línur:

Því þá kemur sólin og sest þar.
Hún sígur vestar og vestar ...

Í gær heyrði ég þetta ljóð sungið í útvarpinu og þá mundi ég eftir vísunni minni og það rann upp fyrir mér að ég hafði ekki verið eins frumlegur og ég taldi mér trú um. Tómas hefur þennan hljóm sem ég sóttist eftir; hann gleðst yfir litlu hlutunum í kringum sig, (hann er hlutbundinn, það sem Þjóðverjarnir kalla sinnlich) hressilegur, mátulega kærileysislegur. Þegar hann kom fyrst fram í ögn staðnaðan og þunglyndan bókmenntaheim hefur það verið dálítið eins og þegar Bítlarnir birtust: ferskir, kátir, bjartsýnir.

 

26.06.2014 01:54

Boðskapur strokuþræls

Ég var að lesa merkilega bók, hún er svo merkileg að mér finnst nauðsynlegt að sem flestir lesi hana. Að vísu eru 170 ár síðan hún var skrifuð og hún fjallar um andstyggilegt fyrirbæri sem er svo löngu horfið úr okkar heimshluta, og öllum siðmenntuðum löndum, að við gerum okkur varla grein fyrir að það hafi eitt sinn verið raunveruleiki, nefnilega þrælahald. En þótt viðfangsefni bókarinnar sé ekki lengur til finnst mér hún eiga erindi við okkur.

Bókin er sjálfsævisaga Frederick Douglass (1818–1895). Hann fæddist sem þræll í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Tvítugur flúði hann úr þrældómnum norður á bóginn. Brátt var hann farinn að halda ræður hjá samtökum sem börðust gegn þrælahaldinu og í framhaldinu fór hann að skrifa í blöð og varð eftirsóttur fyrirlesari beggja vegna Atlantshafs. Bæði var saga hans sérstök – hann hafði upplifað þrælahaldið bókstaflega á eigin skinni – og svo þótti hann mikill ræðumaður, mælskur og mál hans þrungið siðferðilegri alvöru. Á ritum hans sést líka að hann er mikill stílisti. Ég velti fyrir mér þessum stíl, hvaða fyrirmyndir hann eigi og hvar hann sé í dag og að hve miklu leyti stíllinn birtir persónuleika höfundarins. 

Merkilegt finnst mér hvernig hann lýsir sögu hugsunar sinnar: hvernig hann verður fyrst meðvitaður um að vera ófrjáls maður, hvernig hann lærir að skilja samband þræls og herra, hvernig hann uppgötvar að þrælahaldið er stofnun eða kerfi sem mótar einstaklingana, bæði þræla og þrælahaldara. Áhrifamikil er frásögnin af því hvernig hann lærir að lesa: húsmóðir á heimilinu þar sem hann er byrjar að kenna honum stafrófið en þegar húsbóndinn verður þess var leggur hann blátt bann við því að þrællinn læri meira, það muni bara gera hann óánægðan og uppreisnargjarnan. Hann hefur hins ódrepandi þrá eftir menntun og það er eitthvað stórbrotið við lýsinguna á hvernig hann lærir að lesa og skrifa og hvernig hann lærir eitthvað af öllum sem á vegi hans verða.

Ástæðan fyrir að mér finnst bókin eiga erindi við okkur er þó ekki síst að baráttan gegn þrælahaldi er greinilega fyrirmyndin að mannréttindabaráttu síðari tíma. Maður sér hvernig rökin sem þá voru þróuð til að berjast fyrir afnámi þrælahalds eru núna notuð í réttindabaráttu ýmissa minna megandi hópa. Þarna á milli er reyndar óslitinn þráður sem sést á því að á síðari hluta ævi sinnar var Friedrick Douglass farinn að taka þátt í kvenréttindabaráttu þess tíma.


Myndin af Douglass hér fyrir ofan er frá 1847, þá hefur hann verið 29 ára. Þetta er daguerreotype, gerð með fyrstu ljósmynatækninni. Fyrir neðan er titilsíða frumútgáfunnar af bókinni. Stærri gerð af myndunum má kalla fram með því að smella á þær. Ég er að lesa þetta í útgáfu frá American Library. Þar eru líka prentaðar síðari gerðir af ævisögunni sem eru talsvert rækilegri. En þessi fyrsta sem er bara um 125 síður er mjög áhrifamikil. Einhver þyrfti að þýða hana á íslensku.

13.06.2014 12:57

Heimspekingalimrur

Í Svíþjóð var útlitið svart
hinum suðræna Rene Descartes,
   kvalinn af kvefi
   en kartískur efi
myrti hann mestanpart.

smiley

Heimspekingurinn Hume
henti sér upp í rúm
   á sinni uppgefinn,
   það sigraði efinn
hinn sífulla kjaftaskúm.

smiley

Hinn kjaftgleiði hugsuður Kant
í Königsberg rífandi trant,
   krítískur pældi,
   klerkana spældi
og varð ekki orða vant.

smiley

Heimspekingurinn Hegel
hugsandi djúpt mælti: Ég tel
   að fljúgi vor önd
   frjáls út í lönd
frá flugvelli Berlínar, Tegel.

smiley

Við sem að ferðumst með Vá Air
vitum að oft Schopenhauer
   var önugur gaur
   sem átt'ekki aur
því aldrei hann kenndi í HR.

05.06.2014 16:16

Sumarnótt - lítill háttalykill

Við þekkjum öll ferskeytlu og limru. En rímnaskáldin í gamla daga kunnu miklu fleiri hætti. Sveinbjörn Beinteinsson telur 20 mismunandi bragarhætti í Bragfræði sinni og síðan óteljandi tilbrigði. Mér hefur fundist að nútímaskáld geti enn lengi gramsað í þessum sjóði. Eina rólega næturvakt tók ég mér fyrir hendur að gera vísur undir öllum þeim háttum sem Sveinbjörn telur upp og orti um það sem ég sá út um gluggann.

1. Ferskeytla
Esju hylur ullarský,
indælt værðarteppi,
ró og friður ríkir í
Reykjavíkurhreppi.

2. Draghenda
Ljósastaurar langar nætur
loga vel og stara,
sérhverjum þeir gefa gætur
sem gangstéttirnar fara.

3. Stefjahrun
Útá vogi æður fer
árla dags á stjá,
eitthvað fínt hún ætlar sér
í sinn gogg að fá.

4. Skammhenda
Öspin hnarreist upp sig teygir
ærið myndarleg;
kannski þarna efra eygir
eitthvað fleira en ég.

5. Úrkast
Blunda ennþá blómin hljóðu,
bráðum vakna,
vonast eftir öllu góðu,
einskis sakna.

6. Dverghenda
Reyniviður réttur stendur,
reigir sig,
gæskurinn með grænar hendur
gleður mig.

7. Gagaraljóð
Krani stendur kyrr í nótt,
kröftum safnar þó að fús
iðja vilji og áfram fljótt
ætli hann að byggja hús.

8. Langhenda
Ekki eru í söngnum sístir
svartþrestirnir að ég tel,
þarna einn í trénu tístir
tóna sína og sperrir stél.

9. Nýhenda
Unaðslegum óttusöng
óteljandi raddir lofa
dásemd heimsins dægrin löng,
dag sem nótt og aldrei sofa.

10. Breiðhenda
Bræður prúðir, beinar raðir,
bandalagi enginn tvístri,
runnarnir í garði glaðir
grænka svo þeir standa á blístri

11. Stafhenda
Hljóðlátur og hógvær þegn
heiman fer ef gerir regn,
ofaní moldu á sitt bú,
ánamaðkur sefur þú?

12. Samhenda
Rót og stilkur, blóm og blað
í beði mínu á sinn stað,
veit ég mætavel að það
er vísukorn sem moldin kvað

13. Stikluvik
Næturinnar hljóða húm
hlýjum draumum vefur
elskendanna yndisrúm
iðandi af morgunfrúm.

14. Valstýfa
Meðan allur blundar bær
en blómið grær
sæl á beði sínum vær
sefur mær.

15. Braghenda
Dvelur hún á dularfullum draumaslóðum,
vekur bros á vörum rjóðum
vornóttin með kynjahljóðum.

16. Valhenda
Döggin fyllir dropum hverja dæld og laut,
gatan svarta gljáir blaut,
gróðursælast ilmar skaut.

17. Stuðlafall
Sumarnótt ég sit og yrki vísur,
löngum hverfa ljóðin mín
ljúfust vina öll til þín.

18. Vikhenda
Milli skýja myndast stundum rifa
ofan þeirra efalaust
englabörnin lifa.

19. Afhending
Moldin, hún er móðir okkar mannabarna
þó að við því gleymum gjarna.

20. Stúfhenda
Foldin gervöll grær og syngur gleðióð,
ég er sjálfur jarðar ljóð

12.05.2014 20:08

Eftirminnilegir kennarar (4): Neil McMahon

Þegar ég byrjaði í menntaskóla kunni ég ekki mikla ensku. Á þeim tíma var ekki byrjað að kenna ensku fyrr en í gaggó og ég held hún hafi ekki verið jafn stór partur af daglegu lífi unglinga eins og nú. Þegar ég kom út úr menntaskólanum var ég svo orðinn alveg þokkalegur, las blöð og bækur og gat skammlaust haldið uppi vitrænum samræðum við enskumælandi fólk. Mér fannst gaman að læra ensku. Það var auðvitað gaman að geta lesið bækur sem annars hefðu verið manni lokaðar og ég hlustaði á BBC, því þótt ekki hafi verið búið að finna upp internet þá var til stuttbylgjuútvarp sem gerði að nokkru leyti sama gagn.

Svo var alltaf gaman í enskutímunum. Það var ekki síst að þakka kennaranum sem var ungur maður frá Írlandi, Neil McMahon. Ég var í máladeild þannig að það var alltaf enska frá fyrsta bekk fram að stúdentsprófi. Gaman væri að vita hvernig þetta væri talið í einingum eins og kerfið er núna. Neil kenndi allan tímann fyrir utan veturinn sem ég slysaðist í stærðfræðideildina. Hann talaði aldrei íslensku við okkur, alltaf ensku. Líka ef við hittum hann fyrir utan skólann. Og það voru oft miklar umræður. Það var margt talað um bækurnar sem hann lét okkur lesa því hann var bókmenntaunnandi og kunni að miðla því sem honum fannst skipta máli við hverja bók. Svo var talað um íslenskt samfélag sem hann gat séð utan frá þótt hann væri orðinn þátttakandi í því. Svo var oft og lengi talað um Írland. Á þessum tíma var sem mest óöldin á Norður-Írlandi. Íslenskir unglingar áttu erfitt með að botna í því hvernig íbúar sama lands, og jafnvel nágrannar í sömu borg, gátu átt í blóðugum illdeilum, en Neil kunni að útskýra þessa hörmungar allar.

Hann lét okkur alltaf lesa einhver býsn og aldrei nein miskunn með það. Bækurnar voru lesnar og ræddar í tímum og það voru gerð verkefni og skrifaðar ritgerðir. Maður hlýtur að hafa lært heilmikið af þessu. Hér er listi yfir bækurnar sem ég man eftir að hafa lesið í menntaskóla, þetta eru bæði sögur og leikrit. Það getur verið að ég gleymi einhverju:

Tortilla Flat, John Steinbeck
Fear of Flying, Erica Jong
Sons and Lovers, D.H. Lawrence
The Catcher in the Rye, J.D. Salinger
Animal Farm, George Orwell
The Hobbit, J.R.R. Tolkien
The Bell Jar, Sylvia Plath
For Whom the Bell Tolls, Ernest Hemingway
Who's Afraid of Virginia Woolf, Edward Albee
Long Day's Journey into Night, Eugene O'Neill
English Short Stories, (smásagnasafn frá Penguin eða álíka)
Romeo and Juliet, Shakespeare

01.05.2014 21:28

Prófessorinn og vandræðaunglingurinn

Páll Skúlason er prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, virtur fræðimaður, vinsæll kennari og eftirsóttur fyrirlesari. Ein af þekktari ritgerðum hans heitir „Hugleiðingar við Öskju“. Í henni segir hann frá því er hann kom í fyrsta skipti að Öskju og varð fyrir sterkum áhrifum af hinni hrikalegu náttúru og það verður honum tilefni til að hugleiða samband manns og náttúru almennt. Ritgerðin kom fyrst út 1995 og hefur verið þýdd á mörg tungumál síðan, oft er vitnað til hennar og náttúruverndarfólk heldur upp á hana. 

Um svipað leyti og Páll skrifaði ritgerð sína var hópur vandræðaunglinga í Reykavík: krakkar sem höfðu flosnað upp úr skóla, þeim lynti ekki við fjölskyldur sínar, ef þau áttu þá fjölskyldu, sum voru sokkin í neyslu fíknefna, þau höfðu flakkað milli upptökuheimila og annarra stofnana. Kerfið var um það bil að gefast upp á þeim. Þá datt einhverjum útivistargörpum í hug að ungmenni af þessu tagi gætu haft gott af að fara í gönguferð um Hornstrandir: að hverfa úr sollinum í borginni og reyna á líkamann og gera eitthvað nýtt sem útheimtir samvinnu og samstöðu. Úr þessari hugmynd varð til merkilegt starf sem kallað var Hálendishópurinn. Sannað þykir að hann hafi haft góð áhrif: krakkarnir urðu sterkari og sjálfstæðari, þeim gekk oft betur að fóta sig í lífinu á eftir og þökkuðu það reynslunni af gönguferðinni í óbyggðum. Þetta veit ég vegna þess að nokkrir félagsfræðingar rannsökuðu málið. Það voru tekin viðtöl við allmarga unglinganna og skrifuð orðrétt upp, svo voru lagðir fyrir þá spurningalistar og svörin metin eftir kúnstarinnar reglum. Frá þessu er sagt í bókinni Ævintýri á fjöllum eftir Sigrúnu Júlíusdóttur. Þess má geta að Hálendishópurinn var lagður niður í sparnaðarskyni 2010.

Unglingarnir urðu fyrir sterkum áhrifum á Hornströndum eins og Páll við Öskju. Það birtist meðal annars í einu smáatriði sem mér finnst merkilegt: að taka með sér stein sem  minjagrip. Páll segir í ritgerðinni: 

Stundum handleik ég stein sem ég þáði úr Öskjuvatni. Hann minnir mig á þetta veruleikasamband, þessi tengsl, þessa heild sem er Askja sjálf og spannar allt sem er, var og getur orðið.

Einn af unglingunum sem gekk um Strandir segir:

Ég tók þennan stein þótt hann væri ekkert voðalega spes, ég hef bara örugglega áttað mig á að þetta var að verða búið og ég yrði að taka eitthvað með mér, þó ég vissi ekki af hverju – þá.

28.04.2014 14:44

Saga fyrir heimspekikennslu

Þegar maður stundar heimspeki með börnum þarf að vera einhver kveikja – eitthvað sem vekur spurningar, kemur umræðu í gang og afmarkar efnið. Í minni heimspekikennslu hef ég oftast notað sögur. Stundum líka aðra texta eins og fréttir úr blöðum eða greinar um mannlíf og vísindi. Kennslustundin byrjar þá á því að textinn er lesinn í sameiningu, yfirleitt þannig að nemendur skiptast á að lesa upphátt, eina setningu hver. Svo segir kennarinn: Hvaða spurningar vakna? Spurningar nemenda eru skrifaðar á töfluna og svo eru valda þær sem helst vekja forvitni. Í þessu er ég lærisveinn Matthew Lipmans, upphafsmanns barnaheimspekinnar. Á tímabili notaði ég bók eftir Lipman en svo var ég alltaf á höttunum eftir skemmtilegum sögum sem vekja spurningar.

Einhverntíma sagði ég frá í þessu bloggi hvernig mér tókst að glata gögnum mínum úr kennslu. Þar á meðal var safn af textum sem ég hafði notað í heimspekikennslu. Þessvegna gladdist ég um daginn þegar allt í einu birtist á skjánum hjá mér, eftir dularfullum leiðum tölvuheima, saga sem ég notaði stundum í kennslu með minnispunktum mínum um í hvaða áttir umræða gæti þróast. Þetta er dæmisaga eftir rússneskan 19. aldar höfund, Kriloff. Ég hef lesið hana bæði með ungum börnum og eldri borgurum og það bregst ekki að hún kemur í gang fjörugum umræðum. 

Hér er sagan og minnispunktar mínir á eftir:

Hamingjan og betlarinn

Betlarinn gekk frá húsi til húss og hélt á gömlum og slitnum poka.

Meðan hann var að ráfa milli húsanna sagði hann við sjálfan sig: „Það er sannarlega undarlegt að ríku mennirnir eru aldrei ánægðir með hlutskipti sitt. Hversu mikla peninga sem þeir eiga, reyna þeir alltaf að eignast fleiri og fleiri. Einu sinni átti ríkur kaupmaður heima í þessu húsi, en í stað þess að vera ánægður með þá fjársjóði sem hann hafði aflað sér, fór hann strax að útbúa skip til að versla í öðrum löndum. Hann ætlaði að afla nýrra fjársjóða, en skipin hans fórust og hafið gleypti öll auðæfi hans.

„Í þessu húsi þarna bjó maður, sem hafði eignast heila milljón. Hann vildi eignast aðra milljón. Hann fór að braska og tapaði öllu.

„Mennirnir ættu ekki að vera svona heimskir.“

Í þessum svifum hitti hann Hamingjuna augliti til auglitis.

„Heyrðu,“ sagði hún við hann. „Mig hefur lengi langað til að hjálpa þér. Opnaðu pokann þinn og þú skalt fá eins marga gullpeninga og þú vilt. Ég set þér aðeins eitt skilyrði. Ef einn einast gullpeningur dettur úr pokanum þá breytast þeir allir í duft. Pokinn þinn virðist vera slitinn, og þú skalt gæta þess að láta ekki í hann meira en hann þolir.“

Betlarinn varð himinlifandi af fögnuði og opnaði pokan sinn strax. Gullpeningarnir streymdu inn í hann.

„Er þetta nóg?“ spurði Hamingjan.

„Ekki ennþá. Ekki ennþá.“

„En núna? Mundu það að pokinn er gamall og slitinn. Ertu ekki hræddur um að hann rifni?“

„Nei, nei. Haltu áfram. Pokinn getur tekið langtum meira.“

„Hann hlýtur að vera orðinn þungur. Varaðu þig.“

„Bara nokkra peninga í viðbót. Eina handfylli enn.“

„Nú er hann næstum því fullur. Eigum við ekki að hætta núna?“

„Aðeins örlítið enn, gerðu það.“

En í þessu rifnaði pokinn í sundur, gullið hrundi niður á jörðina og varð að dufti.

Og betlarinn átti ekkert eftir nema tóman og einskis nýtan pokann.

Úr Dæmisögur Kriloffs. Úrval handa börnum. Álfheiður Kjartansdóttir þýddi úr ensku. Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Reykjavík 1952

 

Helstu umhugsunarefni: Að fara ekki eftir því sem maður segir sjálfur. Græðgi. Persónugerfing. Hamingja. Heppni.

Hefur svona saga gerst í alvöru, að einhver hafi tapað öllu vegna þess að hann vildi meira? Hvernig gæti það gerst í veruleikanum?

Af hverju vilja ríkir menn eignast meiri peninga?

Er það græðgi? Hvað er græðgi?

Af hverju gat betlarinn ekki hætt þegar peningar streymdu í pokann? Kanntu dæmi um svona hegðun? (Geta ekki hætt að borða, spila, drekka?)

Dæmi um græðgi? Að geta ekki hætt að háma í sig pizzu, vilja eiga allt sjálfur.

Hver er andstæðan við græðgi? Þekkið þið dæmi um það?

Er græðgi sama og samkeppni, eiga meira en aðrir, til hvers?

Af hverju fór betlarinn ekki eftir því sem hann sagði sjálfur?

Þekkirðu dæmi um að einhver fari ekki eftir því sem hann heldur að sé skynsamlegt?

Þekkir þú dæmi um að einhver fari ekki eftir því sem hann segir (og trúir)?

Trúði betlarinn því sem hann sagði?

Þekkirðu dæmi um að fólk segi eitt en trúi öðru, segi annað en það trúir, heldur að sé satt?

Er boðskapurinn að vera ánægður með það sem maður hefur, vera ánægður þótt maður sé fátækur?

Er hægt að eiga of mikið af peningum? Hvað væri mátulega mikið af peningum?

Gefur hamingjan peninga (ef hún er persóna)? Er eitthvað skylt með hamingju og heppni? Betlarinn í sögunni er eins og maður sem vinnur í lottói; er lottóið hamingja?

Eru hamingjusamir menn heppnir? Getur óhamingjusamur maður verið heppinn?

Hvernig lítur hamingjan út? Er hún kona? Engill? Gyðja?

Getum við búið til tákn fyrir fleira en hamingju, gleði, skynsemi, sorg, heimsku, frægð...?

Þekkið þið dæmi um persónugerfingu (fjallkonan, réttlætisgyðjan með bundið fyrir augun)

Hver er boðskapurinn í sögunni? Er það góður/skynsamlegur boðskapur?

Málshættir:

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.

Mikið vill meira.

Ágirnd vex af eyri hverjum

Hliðstæður við söguna: sagan um konuna í þaragryfjunni,  

27.04.2014 23:12

Hringrás lífsins í garðinum

Þetta er nú bara mynd af moldarhrúgu í garðinum. En þetta er dálítið sérstök mold, skal ég segja ykkur, því hún er heimatilbúin. Hún er til orðin úr grasi, mosa, laufi og fleira slíku sem fallið hefur til í garðinum. Í dag tæmdi ég safnkassa sem við höfum sett jurtaleifar í nokkur sumur. Allt var orðið að þessari fínu gróðurmold sem fer beint í matjurta- og blómabeð.

26.04.2014 23:05

Hvað eru þessar konur að hugsa?

Hér eru tvær myndir eftir hollenska málarann Johannes Vermeer (1632–1675). Myndina til vinstri, af konunni að lesa bréf, hef ég stundum notað sem kveikju í umræðuhópum um heimspeki. Þá hef ég spurt: hvað er konan að hugsa? Tilgangurinn hefur verið að æfa ímyndunaraflið, að búa til sögu út frá myndinni – nokkurskonar æfing í að setja sig í spor annarra. Hún er með hugann við bréfið og spurningin er þá hvað stendur í bréfinu. Ýmislegt í myndinni gefur vísbendingar: Hún gæti verið barnshafandi og á bak við hana er landakort á veggnum. Mörgum dettur í hug að bréfið sé frá manninum hennar og að hann sé á ferðalagi og svo verða fljótt til sögur.

Hin myndin, konan að hella mjólk úr könnu, býður ekki svona vísbendingar um neitt sem gæti verið að gerast annarstaðar en í þessu herbergi sem við sjáum. Hún horfir bara á mjólkurbununa sem kemur úr könnunni. Kannski er hún ekki að hugsa um neitt annað, kannski er hún bara í augnablikinu. 

 

24.04.2014 23:09

Pönnukökur og myndlist á sumardaginn fyrsta

 

Það var gaman á sumardaginn fyrsta. Við fengum pönnukökur með rjóma og bláberjasultu og með því sérstakan drykk sem fundinn var upp í tilefni af þessum degi: heimagert bláberjavín með freyðivíni (minnir á drykk sem sumir þekkja sem Kir Royale, bara með keim af íslenskum móa á sumardegi).

Kvöldið var svo helgað myndlist. Uppáhaldslistakona okkar, Ólöf Rún Benediktsdóttir, opnaði litla sýningu í í lítilli fatabúð við Austurvöll. Sýningin heitir Grín-skrín eftir litlum öskjum sem hægt er að kaupa og innihalda grín. Þaðan lá leiðin í Hafnarhúsið þar sem er búið að setja upp lokasýningu útskriftarnema í Listaháskólanum. Þær sýningar eru eitt af því sem kemur með sumarið til okkar, alltaf ferskar og skemmtilegar enda vinsælar. Sýningin opnar ekki formlega fyrr en á laugardaginn en vegna sambanda minna við mikilvæga aðila í listheiminum fékk ég að líta á hana í kvöld. Ég mæli hiklaust með henni, þar er margt skemmtilegt að sjá.

Ef þið eruð ekkert hrifin af þessari  nútímalist þar sem sjást engin venjuleg málverk, eiginlega ekki neinar venjulegar myndir og bara yfirleitt ekki hægt að botna í neinu, þá mæli ég samt með þessari sýningu. Það þarf bara að ganga inn í sýningarsalina með ákveðnu hugarfari, það er þetta: gleyma öllu sem maður veit um list, skilja eftir úti allar kröfur um hvernig list eigi að vera. Í staðinn þarf að galopna augun; það þarf að staldra nógu lengi við hvert verk svo að það nái að koma alla leið til manns, það þarf að gefa verkinu tækifæri til að virka á sínum forsendum, áður en það er dæmt fyrir að vera ekki eitthvað annað en það er. Þetta er allavega mín aðferð. Hún er að vísu nokkuð tímafrek. Eftir að hafa skoðað svona sýningu er niðurstaðan eins og eftir að hafa heimsótt erlenda borg sem engin leið er að sjá alla á stuttri ferð: ég verð að koma aftur. 

Meðan við stöldruðum við var stúlka að fremja þennan gjörning sem sést á myndinni: Hún er með öfluga borvél og tveggja eða þriggja metra langan bor og borar í gegn um viðardrumbinn endilangan. Það er ekki áhlaupaverk, tók hana hátt í tvo tíma og hafði greinilega kostað talsverðan undirbúning. Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta er góð list eða hvort þetta er list yfirhöfuð. Ég hef heldur ekki hugmynd um hvað listakonan hugsar sér með þessu. En það er eitthvað við þetta. Það er viðurinn og lyktin af spónunum sem koma út úr gatinu og hrúgast á gólfið. Það eru átök: þessi litla mjóa stúlka að fást við þennan stóra drumb. Mér datt í hug skessan í Búkollu sem boraði í gegn um fjallið en ekki dugði sú hugdetta mér samt til að túlka verkið. Samt er eitthvað skemmtilegt við þetta.

21.04.2014 03:49

Ljóð á mörkum merkingar

„ekkert orðar mig“

Svona er síðasta línan í ljóðabókinni Neindarkennd eftir Björk Þorgrímsdóttur. Þetta er eiginlega eina setningin í bókinni sem er nokkurnveginn málfræðilega rökrétt, með frumlag, umsögn og andlag í hefðbundnu samhengi. Orð eru annars ekki notuð í þessari bók eins og venja er. Skáldið fer frekar með þau eins og dauða hluti, kannski eins og listmálari með liti.

Stundum er orðunum raðað upp í myndir á síðunum (var það ekki kallað konkretljóð?) og það er alveg á mörkunum að hægt sé að lesa merkingu út úr þeim. Þetta er dálítið eins og að sitja í lest og sjá bregða fyrir allskonar skiltum, þau þjóta framhjá án þess maður nái að lesa úr þeim.

Í bókinni er ekki mikið um hefðbundin tæki ljóðlistar eins og myndhverfingar og tákn. Það væri helst tónlistin sem tilheyrir ljóðum: hljómur orðanna, hrynjandi og stundum líka rím og stuðlar. Stundum virðist bregða fyrir fólki, allavega koma fyrir persónufornöfnin ég, hún og hann. Sérstaklega er þessi hann áberandi. Hann er gefinn til kynna með leturbreytingum og sterk sagnorð tengd við hann („meitlar, upprætir, sortnar, þrútnar“ o.s.frv.) en lesandinn kynnist honum ekki náið.

Stundum þykist maður sjá samhengi, einhverskonar sögu eða boðskap en í næstu eða þarnæstu línu leysist það upp. Það er eins og að sjá myndir í skýjunum. Að finna boðskapinn í bókinni reynir á ímyndunaraflið. Það er stór kostur á bók.

17.04.2014 00:48

Um löng og stutt ljóð eða um kjarnann og hismið

 

Hér eru tvær nýlegar ljóðabækur, önnur bandarísk, hin íslensk. Í annarri eru ljóðin löng, þau ná yfir meira en heila blaðsíðu og línur langar. Í hinni eru ljóðin stutt, aðeins örfáar línur og hver lína yfirleitt ekki meira en þrjú orð. Þessar bækur og fleiri hef ég verið að lesa samtímis og mér finnst áberandi, án þess ég hafi tölur á takteinum til að sanna það, að á Íslandi yrki skáldin styttri ljóð en í útlöndum. Hvernig skyldi standa á því?

Í hverju ljóði þarf að vera einhver ljóðræn hugmynd. Skáld sem yrkir stutt ljóð reynir að hreinsa hina ljóðrænu hugmynd af öllum óþarfa, strika út orð sem ekki styðja hana, sleppa aukaatriðum. Til að lýsa þessu eru notaðar líkingar úr smíðum: að tálga, ydda, meitla. Þegar vel tekst til verður ljóð sem ort er með þessari aðferð gersemi þar sem allt er á réttum stað, ekkert vantar, engu ofaukið. Fyrir nokkrum vikum var ég í útgáfuhófi þar sem útgefandi lýsti vinnu sinni með ljóðskáldi. Sú vinna snerist um að strika út svo að fegurðin ljóðanna fengi betur notið sín. Víðar hef ég heyrt þá skoðun að mikilvægasta vinnutæki skálds sé strokleðrið. Í þessari aðferð er gengið út frá því að hin ljóðræna hugmynd, það sem ljóðið hefur fram að færa, sé einhver kjarni sem þurfi að flysja hismið utan af til að hann komi í ljós. 

Bandaríska bókin heitir The Best American Poetry 2013, ljóðin í henni hefur ritstjóri valið úr því sem birst hefur í bókum og tímaritum. Aftast í henni eru upplýsingar um skáldin auk þess sem þau segja stuttlega frá ljóðunum sínum. Mér finnst athyglisvert að flest, ef ekki öll skáldin, hafa háskólagráður, og mörg eru kennarar, í skapandi skrifum. Stysta ljóðið í þessari bók er lengra en það lengsta í íslensku bókinni. Lesandinn fær að kynnast allskonar smáatriðum í lífi skáldanna. Ég veit ekki hvað er kennt í skapandi skrifum í Bandaríkjunum en mér sýnist augljóst að þar sé verðandi ljóðskáldum ekki innrætt að æðsta dyggðin sé að strika út. 

Ég hef efasemdir um íslensku aðferðina - sífellt að tálga. Ég held að það sem er ljóðrænt í tilverunni sé ekki kjarni inni í einhverju. Ég held að þeir hlutir sem ástæða er til að yrkja ljóð um séu þvert á móti á yfirborðinu. Fegurð er það sem augað sér, hún er ekki undir niðri, það þarf ekki að grafa eftir henni. Það eru smáatriði, aukaatriði, tilviljanir sem eru ljóðræn. Þetta er einhver meinlætastefna. Skáld sem strikar út öll aukaatriði hættir á að missa af því sem máli skiptir. 

12.04.2014 23:26

Ræða í lokahófi Karlakórs Reykjavíkur

Friðrik, Anna Guðný, Natalía. Kæru félagar, góðir gestir.

Vorið er komið. Við sjáum það á birtunni, við heyrum það á fuglasöngnum, við finnum það á lyktinni. Um það leyti sem farfuglar fljúga hingað til okkar úr Suðurlöndum og sælgætisgerðirnar auglýsa páskaegg og kristnir fagna upprisunni þá syngur Karlakór Reykjavíkur vortónleika. Og við sem hér erum stödd í kvöld vitum að það er sá atburður sem kemur með vorið.

Undanfarna viku minnti Friðrik okkur oft á gleðina; „syngið með augunum!“ sagði hann í eitt skiptið. Og það er ekki annað hægt en hrífast með, ekki annað hægt en vera glaður. Það er alveg eins og í ljóðinu sem við sungum í dag: „Glad såsom fågeln i morgonstunden“. Það er ekki hægt að vera í vondu skapi á svona degi. Það er svo gaman þegar eru vortónleikar.

Á þessum tónleikum var víða komið við: Ísland, Rússland, Noregur, Skotland, Svíþjóð, Kanada, Bandaríkin. Við sungum bæði um gleði og sorg. Þær systur eru víst báðar fastir gestir í lífinu. Það er eins og listirnar snúist um oft um sömu stóru viðfangsefnin. Í lögunum sem við syngjum koma oft sömu yrkisefnin aftur og aftur: ættjörðin, ástin, hafið, blómin, nóttin von, trú, sorg, gleði.

Og hestar.

Það var sungið um ástina: Natalía sagði okkur um hvað rússneska ljóðið er sem hún söng: enginn nema sá sem hefur elskað veit hvað ástin er. Og hún þurfti ekki að þýða meira, því við heyrðum í söng hennar og í tónlist Tsjækovskís hvaða tilfinning var að baki.

Það var sungið um ást og aðskilnað í Loch Lomond. Það er samt ekki sorglegt lag, heldur þvert á móti frekar glaðlegt og skemmtilegt.

Eitt ljóðið sem við sungum er fullt af einhverjum dularfullum geig, það er Nú sigla svörtu skipin. Mér er sagt að Davíð Stefánsson hafi verið þunglyndur og það er eiginlega eina skýringin á þessu sérkennilega ljóði með þessum drungalegu myndum: „þau mara í kafi dauðadæmd“ o.s.frv. En skáld sem yrkir svona ljóð hefur þegar náð að horfa á þunglyndið utan frá og sá sem syngur það, eins og við gerðum í dag, hefur náð, þó að það hljómi þversagnakennt, að umbreyta sorginni í gleði.

Þetta er það sem list okkar gerir, hún tekur lífið sjálft og umbreytir því í tónlist og með því breytir hún því í gleði, jafnvel sorginni sjálfri. Það er ekki almennilega hægt að vera óhamingjusamur á meðan maður syngur.

Þetta vita allir sem syngja í kór: það er gaman að vera í kór. Þessar reglulegu æfingar gera langa, kalda og dimma vetrarmánuði bjartari og skemmtilegri. Æfingarnar geta verið strembnar, stundum gengur ekkert svo vel. En við vitum að við munum uppskera laun erfiðisins: við vitum að það koma vortónleikar. Friðrik heldur okkur við efnið og það er auðvitað honum að þakka að allt gengur upp á endanum. Þó má geta þess að einn ákveðinn félagi á heiður skilinn fyrir þátt sinn í hve vel tókst með eitt lagið í dag. Félagar í kórnum þekkja söguna en kannski er allt í lagi að gestir okkar heyri hana. Í laginu Loch Lomond kemur fyrir keðjusöngur þar sem ríður á að halda takti því annars fer allt í bendu. Þá vildi svo vel til að Baldvin, félagi okkar í tenor, átti leið til Skotlands og honum var vel kunnugt um að Loch Lomond er ekki bara nafn á vinsælu lagi og á stærsta stöðuvatni Bretlandseyja heldur líka nafn á viskíi. Hann hafði uppi á flösku af þessu viskíi og kom með hana á næstu æfingu og gaf kórnum. Þó með þeim skilmálum að hún yrði ekki opnuð fyrr en við værum búnir að læra þetta lag. Það gerðist síðan í Stykkishólmi um daginn. Að lokinni síðustu æfingu helgarinnar, sem hafði staðið frá því snemma um morguninn, var flaskan opnuð og innihaldinu skipt milli félaganna. Það gerir um einn sentilítra á mann, en menn nutu þess þeim mun betur sem þeir vissu að þeir höfðu unnið fyrir því. Það eru til myndir af þessum atburði. Þið ættuð að sjá svipinn á mönnum þegar flaskan er opnuð. Hann er eins og svipurinn á barni sem er að taka umbúðir utan af páskaegginu sínu.

Það koma ákveðin augnablik í lífinu sem lifa í minningunni, þegar eitthvað gerist sem hrífur okkur eða breytir okkur og sýnir okkur hvað skiptir máli í raun og veru. Þessar minningar verða viðmiðunarpunktar okkar í tilverunni, það sem við upplifum síðar sjáum við í ljósi þessara minninga. Nokkrar svona minningar eru tengdar þessum kór. Mig langar að rifja fáeinar upp. Þetta eru mínar minningar, aðrir munu eiga einhverjar aðrar. Ein er um að dansa færeyskan dans með vinum okkar í Thórshafnar mannskór. Önnur er um að syngja eitt erindið í Fögur er foldin á færeysku. Mér finnst færeyska ljóðið betra í þessu erindi en það íslenska, ég bið viðstadda Færeyinga að afsaka framburðinn:

Öldirnar fara
Öldir munu koma,
Ætt eftir ætt sökkur undir mold.

Maður skilur hvernig er að vera Færeyingur þegar maður syngur þetta, maður verður næstum að Færeyingi.

Önnur svona minning er um að syngja í Stefánskirkju í Vín. Þar sungum við man ég Heyr himnasmiður og Heilig, heilig. Um leið og okkar söng lauk tók þarlendur klerkur til máls og greip orðin sem við höfðum rétt í því sungið til að hefja predikun sína: „Heilig, heilig, já sannarlega er hann heilagur ... “. Ógleymanlegt er einnig úr sömu ferð að hafa átt þess kost að sjá Pál P Pálsson í sínu náttúrulega umhverfi í Graz. Svo var sérstakt að koma saman á 80 ára afmæli kórsins við leiði Sigurðar Þórðarsonar eldsnemma morguns um miðjan vetur. Ógleymanlegt var að standa á kórsvölum í Eldborg og allt í einu fer allur salurinn að syngja stefið sem við erum nýbúnir að fara með. Ein svona hjartnæm stund var núna fyrir hálfum mánuði þegar við vorum í Stykkishólmi: Þar stóðum niðri við fjöru eftir sólsetur og sungum Nú hnígur sól að sævar barmi.

Enn ein sterk minning er um stjörnubjartan himin. Þið þurfið að sjá fyrir ykkur íslenska heiði um miðjan vetur. Það er komin nótt, snjór yfir, það er heiðskírt og stjörnubjart. Stjörnumerkin rifjast upp um leið og þið sjáið þau: Karlsvagninn, Óríon, Sjöstjarna. Og þvert yfir himininn liggur Vetrarbrautin sem við sjáum vanalega ekki í borginni fyrir ljósmengun. Þetta eru sömu stjörnurnar og landnámsmenn sáu þegar þeir „komu með eldinn um brimhvít höf“ og „stýrðu eftir stjarnanna skini“. Þegar maður horfir upp í stjörnurnar fer mann að gruna að heimurinn sé óendanlegur, maður sér það, þarna á milli stjarnanna og bak við þær, þarna er sjálf eilífðin. Nú þegar þið hafið dregið upp þessa mynd fyrir hugskotssjónum ykkar þurfið þið næst að sjá fyrir ykkur rútu koma akandi yfir heiðina. Hún er full af karlakór á leiðinni heim úr einhverjum söng úti á landi. Af einhverjum ástæðum, sem ég man ekki alveg hverjar eru, verður öllum mál að pissa þarna á heiðinni. Þannig að rútan nemur staðar í vegarkanti og mennirnir labba út í móa til að létta á sér en yfir þeim hvelfist þessi óendanlegi eilífi stjörnuhiminn. Það er ljóðræn upplifun, næstum því trúarleg reynsla, að horfa á stjörnurnar um leið og maður pissar. Það stóra og það smáa tengist, ópersónulegur alheimur verður eitt með hinu allra persónulegasta í einni og sömu upplifun.

(Mig langar að minnast á allra fyrstu æfinguna sem ég mætti á í kórnum. Það var í Ými; ég var nokkuð upp með mér af að vera kominn í þennan kór, allir heilsuðu og buðu mig velkominn og voru almennilegir þannig að ég var ekkert mjög stressaður þrátt fyrir að vera á nýjum stað þar sem ég átti eftir að læra á alla hluti. Fyrst var sungin einhver upphitun: a-e-í-o-ú. Það var ekki svo erfitt, alveg viðráðanlegt, ég gat verið með í því. En þá segir Friðrik allt í einu: „Ísland, Ísland“, og samstundis brestur allur hópurinn í söng: Ísland, Ísland, eg vil syngja. Ég hafði aldrei heyrt þetta lag fyrr. Það var ekki annað að gera en láta tónlistina hrífa sig með. Þið þurfið að sjá þetta fyrir ykkur: að sitja í miðjum hópnum, með þessa voldugu bassa sitt hvoru megin, og allt í einu, án undirbúnings, án fyrirvara, fyllist salurinn af þessum máttuga söng. Hann feykti mér um koll og ég hef ekki verið samur maður síðan. Fljótlega lærði ég að syngja með í laginu. Ég veit ekki hvað við höfum sungið það oft síðan, örugglega mörghundruð sinnum. En við verðum aldrei leiðir á því, okkur finnst alltaf jafn gaman að syngja það. Þetta er náttúrulega bilun. En ég held að það sé þá bilun af sömu tegund og hrjáð hefur suma snillinga í listum sem leggja allt í sölurnar fyrir list sína.)

Ég man fyrstu kóræfingu eftir bankahrunið, það hefur verið þriðjudaginn 7. október 2008. Bankarnir, sem misserin þar á undan höfðu gert sig líklega til að kaupa heiminn, voru gjaldþrota. Um helgina hafði hulunni verið svipt af þeim. Við blöstu spilaborgir og þær hrundu fyrir augunum á okkur. Enginn vissi hvað dollarinn kostaði, það voru grunsemdir um að ekki yrði hægt að flytja inn nauðsynjavörur, að peningarnir yrðu að engu, forsætisráðherra í beinni útsendingu bað Guð að blessa Ísland. Við höfðum aldrei orðið vitni að öðru eins, þjóðin var áhyggjufull, sumir voru hræddir, margir voru reiðir – þetta var undarlegur tími. Þegar kórfélagar mættu á æfingu þetta kvöld hafði Friðrik orð á þessum atburðum, en bætti við: „En við eigum gott, við höfum tónlistina, .“ Svo var haldið áfram að æfa jólalögin.

Það er ekki hægt að vera dapur, reiður eða áhyggjufullur og syngja samtímis. Þetta skýrir margt. Til dæmis það að söngvarar í karlakórum eru allir, allir sem einn, skemmtilegir menn. Hér eru allskonar menn: bílstjórar, smiðir, málarar, kennarar, verkfræðingar, heimspekingar, ungir, gamlir, feitir, mjóir, úthverfir, innhverfir, Reykvíkingar, Hafnfirðingar, Skagfirðingar. En við eigum allir tónlist í hjartanu og í dag sungum við sem einn maður. Í dag vorum við eitt hljóðfæri sem bætti agnarögn af gleði í heiminn með tónlist.

Þetta skýrir líka aðra staðreynd sem margir hafa tekið eftir og sem kemur alveg berlega í ljós hér í salnum í kvöld. Það er að félagar í karlakórum eiga fegurri og gáfaðri konur en aðrir menn. Helst ætti ég ekki að standa hér og tala um af hverju er gaman að vera í kór. Frekar ætti ég að flytja sérstaka lofræðu um hverja og eina konu hér í salnum, þá færi ég kannski að nálgast kjarna þess sem ég hefði viljað sagt hafa. Sumir halda að skýringin á þessu mynstri í ráðahag karlakórsfélaga sé sú að þeir sem iðki tónlist hljóti þar með að vera þvílíkir smekkmenn að þeir velji sér fagrar konur. Aðrir segja að fagrar og gáfaðar konur laðist að öðru jöfnu fremur að söngelskum mönnum. Það kemur líklega út á eitt.

Að loknum þessum fagnaði hér í kvöld munum við ganga út í vornóttina og á morgun bíður okkar nýtt verkefni. Þegar við komum út getum við staldrað við og hugleitt eitt lagið sem sungið var í dag þar sem vornóttin var ákölluð: Kom vornótt og syng. Í ljóði Jóns frá Ljárskógum er vornóttin beðin um að syngja vegna þess að söngur hennar megni að „sigra sorg og harm“. Já, það er söngurinn sem sigrar sorg og harm. Við sem hér erum saman komin vitum: Í söngnum býr gleðin sjálf.

Það eru víst tvær vikur þangað til við segjum gleðilegt sumar, en vorið er komið og við skulum gleðjast hér í kvöld og á morgun og alla daga. Kæru vinir: Skál fyrir vorinu!


Ég flutti ræðu í lokahófi Karlakórs Reykjavíkur að loknum fernum tónleikum í apríl 2014. Hún var styttri útgáfa af þessum texta.

08.04.2014 16:27

Græjurnar mínar (1)

Ég virðist vera sá eini í þessari fjölskyldu sem er hæfur um að eiga snjallsíma. Öll hin eru áhugalaus um nýjustu græjur. Jafnvel þótt þau fái fína snjallsíma í hendur gera þau ekki annað en hringja og í mesta lagi senda sms en hirða ekkert um alla hina möguleikana og reyna ekkert að hlaða niður öllum þessum sniðugu öppum, til dæmis að fá fram kort sem sýnir hvar þau eru stödd í bænum, eða kynna sér hvenær strætó kemur, spila tölvuleiki, að ekki sé minnst á að skoða Facebook hvar sem maður eru staddur.

Áður fyrr átti ég Sony-Ericson síma sem var það fullkomnasta á markaðnum þegar ég fékk hann. Það var þó aðeins fyrir sigurgöngu snjallsímanna. Sá sími var minn uppáhaldshlutur en um síðir kom að því að hann datt í sundur. Lengi vel tókst mér að halda honum saman með límbandi en að lokum dugði það ekki til og hann gafst endanlega upp. Þá höfðu Sony og Ericson slitið samstarfinu, varahlutir fengust ekki og enginn vildi gera við hann. Þá fékk ég mér ódýrasta síma sem í boði var. Hann kunni ekkert nema hringja og senda sms. Ég lét mér það lynda og reyndi að telja mér trú um að það væri ekkert varið í þessa tækni hvort sem er.

En nú um daginn kom að því að ég gekkst við veikleika mínum fyrir græjum og ég fékk mér snjallsíma. Það gerðist þó ekki í neinu bráðræði. Ég kynnti mér vandlega úrvalið og las mér til um kosti og galla hinna ýmsu tækja. Fyrir valinu varð LG sími í ódýrari kantinum sem getur þó allt það sama og dýrari tæki nema spila einhverja mjög flókna leiki; hann hentar mér fullkomlega. Þetta er allt annað líf.

07.04.2014 16:36

Líf og list

Nú eru allir í einhverri list. Magnús var um helgina með hljómsveitinni sinni að spila í Þýskalandi. Snorri var í dag að spila undir hjá félaga sínum sem var að taka miðpróf. Rán er alla vikuna að setja upp verk sitt á lokasýningu meistaranema í myndlist í Listaháskólanum. Vikan hjá mér fer mikiðtil í að syngja á vortónleikum karlakórsins.

05.04.2014 21:04

Allt gott að frétta

Hvað er að frétta?

Allt gott bara, ekkert sérstakt þannig lagað, lífið bara gengur sinn vanagang.

Hefur þá ekkert gerst?

Jú, alltaf eitthvað að gerast, til dæmis í dag. Í morgun fór ég á fætur á undan öðrum á heimilinu, lagaði mér kaffi, át ristað brauð með marmelaði og skoðaði blöðin. Þetta tók um klukkustund. Þá fór ég í sund og synti þúsund metra og sat svo góða stund í heita pottinum og ræddi málefni líkamsræktarstöðvarinnar í kjallaranum. Þangað hef ég reyndar aldrei komið en þannig stendur á að rekstur hennar hefur verið boðinn út og kúnnarnir hafa skoðanir á hver eigi að taka við.

Eftir það dreif ég mig á kóræfingu í Langholtskirkju – nú er nefnilega aðaltörnin í kórnum því vortónleikarnir eru framundan, þeir verða í næstu viku – og fór þangað í strætó. Til að komast úr Kópavogi að Langholtskirkju er best að taka leið 1 að Kringlu og síðan leið 14 frá Verzló. Fyrir utan Verzló hitti ég Ármann Halldórsson, heimspeking og kennara, og við spjölluðum saman þangað til vagninn minn kom. Þetta var í annað sinn á fáum dögum sem ég hitti hann á þessum stað. Í fyrra skiptið sagði ég honum frá doktorsritgerðinni minni og í morgun sagði hann mér frá meistararitgerðinni sinni. Þarna sjáið þið kostina við að taka strætó: maður hittir merkilegt fólk.

Að æfingu lokinni tók ég aftur leið 14 beina leið niður í miðbæ og náði að mæta tímanlega í Heimspekikaffihúsið klukkan tvö. Þar varð talsvert merkileg umræða um hvað það þýðir að vera næmur. Hér mætti skrifa langt mál um það efni. Ég læt nægja að vísa í minnispunkta sem ég setti á Facebook.  

Við Rán höfðum rætt um að fara á sýningu á verkum Hreins Friðfinnssonar sem opnaði í dag. Við mæltum okkur mót í Kolaportinu þar sem hún vildi kaupa gleraugu. Á leiðinni út gengum við í gegn um matardeildina, sem var þó að loka, og sölufólk að breiða yfir borðin. Við náðum þó að kaupa krækling til að hafa í kvöldmatinn. 

Einhverntíma hef ég sagt frá hvernig ég tel mig lærisvein Hreins Friðfinnssonar í listum og hvað ég met hann mikils. Mér þótti því varið í að sjá þessa sýningu. Þar var margmenni en listaverkin eru þannig að helst þarf ég fara aftur til að skoða betur í ró og næði. Svona í fyrstu umferð er mér minnistæðast röndótta verkið með tilheyrandi sögu og vídeó af manni að snúa sér í hringi standandi á haus en við hliðina vídeó af pendúlnum sem Hreinn setti upp í Orkuveituhúsinu.

Svo fórum við heim og ég skráði minnispunkta mína um umræðu í Heimspekikaffihúsinu og svo þurfti að hugsa um kvöldmat. Ég ætla að ljúka frásögn minni af þessum ævintýralega degi með uppskriftinni að kræklingnum:

EFNI
Einn poki af kræklingi úr Kolaportinu
Hálfur laukur
Fullt af hvítlauk
Svona tveggja sentimetra bútur af engiferrót
¼ af appelsínugulri papriku
Safi úr hálfri appelsínu
Hálft hvítvínsglas sem varð afgangs í gær
Smjör

AÐFERÐ
Saxa lauk, engifer, papriku og láta malla í smjöri á stórri pönnu með þykkum botni. Þegar það er farið að glansa og ilma þægilega skal hella hvítvíni og láta sjóða duglega, svo fer appelsínusafinn út í og þegar byrjar aftur að sjóða væn klípa af smjöri. Þegar hún er bráðnuð og enn fer að sjóða sturtar maður kræklingnum út í og setur glerlok á pönnuna sem lokar henni tryggilega. Þá þarf ekki langan tíma þar til kræklingurinn er mátulega soðinn, það sést hvernig skeljarnar opnast og þá glittir í bleikan fiskinn milli þeirra. Með þess er fínt að drekka vatn úr krananum. Við snæddum spagettí með þessu, ég mæli með því, en það er líka hægt að hafa þetta sem forrétt eða hvað annað sem manni dettur í hug. 

 

03.04.2014 18:13

Kalli kjúlli

Þessi kjúklingur labbaði um danskan móa meðan hann lifði

þar tíndi hann upp í sig fræ og pöddur sem honum leist best á

og þurfti ekki að láta dæla í sig endalausu maískorni

eins og frændur hans í skemmunum stóru.

Ég fann hann frosinn í bláum svefnpoka,

þíddi hann gætilega og fyllti með brytjuðu epli

og nú brúnast hann í steikarofni mínum baðaður smjöri.

Ilmurinn leikur um eldhús,

diskar bíða í stofu

 

vatn í munn

02.04.2014 21:07

Söngæfingar og fleira

Kórinn fór í sínar árlegu æfingabúðir um helgina. Að þessu sinni var farið í heimabæ stjórnandans, Stykkishólm. Það gekk allt eins og í sögu og öllum fannst gaman. Kórinn var duglegur að æfa í samkomusal hótelsins. Síðdegis á laugardeginum var svo opin æfing í kirkjunni. Þangað kom fullt af fólki til að hlusta. Þá fundum við vel hvað munar um að syngja í húsi þar sem hljómar vel. Í hótelsalnum var lítill hljómur. Eftir að hafa æft þar frá því snemma um morguninn voru allir dálítið lúnir. En í þessari fallegu kirkju fór allt að hljóma og þá endurnýjaðist krafturinn og kórinn naut þess að syngja.

Við erum nokkrir í kórnum sem þykjumst hagyrðingar. Við vorum tveir að barma okkur yfir að vera andlausir og geta ekki hnoðað saman nokkurri vísu. Í hádegismatnum sagði ég svo við félaga minn að ef hann gerði fyrri part skyldi ég botna. Hann lofaði að athuga málið. Eftir æfinguna í krikjunni var hann kominn með fyrri part og von bráðar tókst mér að botna:

Í kirkju einni kórinn söng 
og kerlingarnar grætti,
dró síðan fram drykkjarföng
og dropum á sig bætti.

Í kvöldmatnum gerði ég svo eina í viðbót:

Vigfús Skúla vin sinn bað
vísuna að botna.
Erfitt honum þótti það
þar til hann fór að blotna.

Jæja, eitthvað er maður latur við þetta blogg. Sagt er að allt hafi sinn tíma og kannski hefur þetta bara runnið sitt skeið, allir bara á Facebook núna. En eftir að hafa haldið þessari síðu úti svona lengi stendur manni ekki alveg á sama um hana. 

23.03.2014 23:55

Dömukór heldur karlrembutónleika

 

Brennið þið, vitar! Hetjur styrkar standa
við stýrisvöl en nótt til beggja handa.

Brennið þið, vitar! Út við svarta sanda
særótið þylur dauðra manna nöfn.

Brennið þið, vitar! Lýsið hverjum landa
sem leitar heim og þráir höfn.

Þetta söng dömukórinn Graduale Nobile á tónleikum í kvöld. Ljóðið tjáir einhverja djúpa ógn sem heyrist ekki alltaf fyrir hinu magnaða lagi, sé það ekki sungið með tilfinningu, einkum millikaflinn. Í kvöld mátti heyra lagið flutt með innlifun og nýjum hljóm, enda er Graduale Nobile kór á heimsmælikvarða. Fyrst á efnisskránni var Ísland, Ísland, eg vil syngja, lagið sem Karlakór Reykjavíkur elskar og verður aldrei leiður á að syngja. Svo komu mörg fleiri sígild karlakóralög. Þær segja í efnisskrá að þær hafi lengi langað til að syngja hefðbundin karlakóralög, halda „karlrembutónleika“, en taka fram að þær hafi gengið til æfinga með virðingu fyrir karlakóramenningunni. Í salnum sátu þónokkrir félagar í karlakórum og gátu ekki annað en hrifist af hvernig var hægt að gæða þessi gömlu uppáhaldslög nýjum töfrum; allavega einum þeirra lá við að vikna þegar stúlkurnar sungu Sefur sól hjá Ægi.


Myndin er fengin að láni úr auglýsingum fyrir tónleikana.

09.02.2014 18:05

Hárið á íslensku

Árið 1970 sýndi Leikfélag Kópavogs Hárið. Söngleikurinn var þá glænýr og gekk fyrir fullu húsi á Broadway, það var hippatími, Víetnamstríðið geisaði. Þá var þetta nýtt og ferskt og fjallaði um hluti sem máli skiptu. Kristján Árnason þýddi textana. Lengi hef ég haft hugboð um að einhverjar þýðingar hafi birst á prenti og öðru hvoru svipast um eftir þeim en aldrei fundið fyrr en í dag: Nokkrir textar birtust í Vikunni 1970. Þýðingin er snilldarleg. Hárið er enn sett upp á nokkurra ára fresti hér á landi en þá eru alltaf notaðar aðrar þýðingar. Mér finnst að sniðugt leikhúsfólk eða tónlistarmenn ættu að prófa að syngja þessa texta.

Hér er titillagið eins og það var flutt í bíómyndinni 1979 og fyrir neðan þýðing Kristjáns á textanum.

Hún spyr mig hví

hef ég allt þetta strý.

Alltaf, jafnt dag og ár

er ég með hár.

Hárugur hátt og lágt

hví – það þú vita mátt

ekki í auraleit

eins og danshljómsveit.

Elskan –

Hárprúðan gef mér haus

hárlokkum vaxinn

fríðum stríðum síðum

sléttum þéttum.

 

Hár á herðar niður

hingað ekki lengra

elskan hér mamma þar

alls staðar pabbi pabbi

 

Hár hár hár

hár hárið hárið

létta þétta

lætur drottinn spretta

á mér.

 

Það í golunni gýs

og mót greinunum rís

og þar flær og þar lýs

eiga skjól.

 

Því býflugnasveim

vil ég bjóða heim

og flugum ból

og fuglum skjól

mun þá veita mitt forkunnar

undrunarfagra

 

Hár hár

hár hár hár

hár hárið hárið

létta þétta

lætur drottinn spretta

á mér.

 

Ég vil að hárið flaksist

faxi líkast stríðu síðu

glampi skíni glói grói

kvíslist hríslist hringist stingist

liðað lokkað hrokkið

úfið og hringsnúið

sléttist þéttist og margfléttist

vefjist trefjist hefjist og uppbrettist.

En geturðu séð í mér augun

er hár mitt alltof stutt?

Hættir hér

hingað nær

niðrá tær

ef vaxa fær.

Dú dú dú dú dú dú dú dú dú dú

dú dú dú dú dú dú dú dú dú dú.

 

Glasabræður grípur æði

er þeir sjá mitt síða klæði

sem ég óf úr billjantínbornu

biblíuhári.

Eins hár og herrann bar það

hallelúja fagurt var það

hallelúja María elskað' 'ann

hví ann mér engin móðir?

Hár hár

hár hár hár

hár hárið hárið

létta þétta

lætur drottinn spretta

á mér.

08.02.2014 20:37

Ljóðalíf

Það er meira mál en ég hélt að fylgjast með ljóðlist. Um daginn lýsti ég yfir að ég ætlaði að lesa allar ljóðabækur sem koma út á íslensku á árinu. Það er svosem viðráðanlegt. En ég hafði hugsað mér að í leiðinni skyldi ég og fylgjast með viðburðum í bæjarlífinu þar sem ljóðlist kemur við sögu. Það er erfiðara og stundum ómögulegt því þá þyrfti maður að vera á tveim stöðum samtímis. Nú þegar hef ég misst af tveim ljóðaviðburðum svo ég viti. Fyrst þegar Ljóðstafur Jóns úr Vör var afhentur, verðlaun í ljóðasamkeppni. Þá var víst skemmtileg hátíð þar sem nokkur skáld lásu ljóð. Ég hef enga sérstaka afsökun fyrir að láta hana fram hjá mér fara.

Í gær var svo háð ljóðaslamm í sjöunda sinn. Ég fór í fyrra og fannst mjög gaman. Þetta er öðruvísi umgjörð um ljóðlistina, það er ekki lesið af bók og þetta er heldur ekki hefðbundinn upplestur þar sem skáldið stendur með bókina sína í höndunum. Í ljóðaslamminu er meiri tónlist og leikhús. Borgarbókasafnið, sem stóð fyrir þessu, hefur lofað að setja myndbönd á netið þannig að vonandi get ég kynnt mér hvað gerðist í gær.

Fyrir löngu ákvað ég að mæta á ljóðaslammið í ár en þá vildi svo til að sama kvöld var fundur í kvæðamannafélaginu Iðunni. Reyndar er ég ekkert í því félagi og hafði aldrei mætt þar á fund. Hef þó lengi vitað af því og að þar er fólk með sömu kenjar og ég um stuðla og höfuðstafi. Þá gerðist það um daginn að maður sem ég ber virðingu fyrir og tek mark á hvatti mig til að mæta. Í gærkvöld fór ég semsagt á fund í Iðunni. Þar voru allmargir þekktir hagyrðingar og líka fólk sem kann að kveða og leggur rækt við gömlu rímnalögin. Einhverjir könnuðust við minn kveðskap án þess að hafa nokkru sinni hitt mig. Samkoman var auðvitað skemmtileg og fróðleg fyrir mann eins og ég. 

Fyrir utan þetta sem ég hef talið upp gætu ljóð fundið sér fleiri leiðir. Stundum koma þau í blöðum og tímaritum; svo er auðvitað netið og rafbækur. Á þeim slóðum hafa þegar nokkur ljóð orðið á vegi mínum. Þannig að farið ekki langt: innan tíðar verða sagðar fleiri fréttir af ljóðum.

25.01.2014 04:55

Fyrsta ljóðabók ársins

Ég átti eftir að segja frá áramótaheitinu mínu. Það er þetta: að lesa allar ljóðabækur sem koma út á íslensku á árinu. Ég hélt að mér lægi ekki á, að framan af yrði rólegt og enginn færi að gefa út ljóðabækur fyrr en að áliðnu sumri í fyrsta lagi. En fyrsta ljóðabók ársins kom nú um daginn og ég er reyndar búinn að lesa hana. Það er Ljóðstafaleikur eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson.

Ragnar er svona sveitamaður í borginni, upprunninn í Hrafnkelsdal fyrir austan en býr í Grafarvogi. Hann yrkir um báða staði og er ekki annað að skilja en báðir séu honum kærir. Stundum er hann alvarlegur og stundum fullur af galgopaskap; stundum blandast það saman. Hann yrkir fallegar náttúrulýsingar og stundum leita eilífðarmálin á hann og þá verður hann heimspekilegur. Sum ljóðin er óhætt að flokka sem trúarljóð. 

Öll ljóðin hafa stuðla og flest hafa rím, þetta er það sem kallað er „hefðbundið form“. Ragnar er einhver snjallasti hagyrðingur nú um stundir eins og sést í bókinni því þar eru prentuð nokkur sýnishorn af vísum sem hann hefur kastað fram á hagyrðingamótum. Svo er hann bragfræðingur og m.a.s. doktor í bragfræði. Ég las doktorsritgerðina hans í fyrra, Tólf alda tryggð, og það er stórmerkileg bók. Nýlega gaf hann út handbók um bragfræði og margt fleira hefur hann starfað. 

Bókin er ljóðaúrval, flest í henni hefur birst áður (það kemur þó hvergi ótvírætt fram í henni og ég sakna þess aða hafa ekki einhverskonar skrá um hvaðan ljóðin eru og hvenær þau birtust fyrst). Það væri freistandi að velja sér ljóð og fara að tala um það, reyna að útskýra hvað ég sé í því, skoða tibrigðin við þetta svokallaða hefðbundna form, reyna að finna þræði milli ljóðanna o.s.frv. En á hinn bóginn er freistandi að gera það ekki, að segja ekki neitt. Ljóð vilja ekki láta útskýra sig mikið, þau vilja standa eins og þau eru. Allavega er ég ekki viss um að þeim sé greiði gerður með því að ég fari að reyna það. – Eða kannski geri ég það samt þegar ég hef lesið bókina aðeins betur. – Ég læt eitt ljóð fylgja þar sem mér finnst kostir skáldsins njóta sín vel.

Erindið var líka aðallega að láta vita að ég hafi fram að þessu staðið við áramótaheitið mitt.


 

Við gluggann

Við undarlegan glugga

     ég uni löngum stundum

er allri glætu feginn.

 

Það er ekki hægt

     að horfa þar í gegnum

því hann er illa þveginn –

 

og glerið matt og hamrað

     svo geislar í því brotna –

 

en guð er hinu megin.

          Ragnar Ingi Aðalsteinsson

 

14.01.2014 19:42

Kötturinn sem hefur gætur á næturverðinum

 

Einu sinni var köttur sem ekki sætti sig við að vera fluttur hreppaflutningum heldur strauk og lagðist í flakk og gerðist útileguköttur. Fór hann víða um borgina frjáls og engum háður. Það var þægilegt líf, nætur voru bjartar og auðvelt að ná í matarbita. Segir ekki af ferðum hans fyrr en hann finnur hús þar sem býr margt gamalt fólk. Þar fór hann að sniglast um og jafnvel laumast inn. Starfsfólkið sem hugsar um gamla fólkið hafði gaman að honum og vék stundum að honum góðgæti. Það lét hann sér vel líka þangað til hann var einn daginn handsamaður og fluttur aftur á það heimili sem hann hafði áður strokið frá. Ekki lét hann bjóða sér það frekar en í fyrra skiptið og strauk aftur við fyrsta tækifæri. Tók þá enn við flökkulíf í tvo mánuði þangað til hann var aftur kominn að húsinu með gamla fólkinu. Starfsfólkið iðraðist þess þá að hafa sent hann frá sér og bauð hann velkominn ef hann vildi gera sér að góðu afganga úr eldhúsinu og rjóma í skál. Þetta kom sér reyndar ágætlega því þegar hér er komið sögu var tekið að kólna í veðri og nætur að lengjast. Eftir að hafa rannsakað húsið hátt og lágt fann hann hlýjasta staðinn sem er kompa í kjallaranum. Þar er gott að kúra meðan napur vetur ríkir úti. Um nætur er rólegt í húsinu, enginn á ferli nema næturvörður sem öðru hvoru röltir hring til að gá hvort allt sé í lagi eða til að aðstoða gamalmenni sem ekki sofa af einhverjum ástæðum. Þegar kötturinn verður var við að næturvörðurinn fer af stað er hann óðara mættur og fylgir honum hvert fótmál. Þó er hann ekki sérlega mannblendinn, leyfir fáum að halda á sér eða klappa sér, nema hvað honum þykir gott að láta klóra sér á hálsinum.

 

19.12.2013 14:14

Meira vísnadót

Hér eru nokkrar vísur sem ég hef undanfarið látið flakka á Boðnarmiði, kveðskaparhópnum á Fésbók. 

 

Ingólfur Ómar orti hringhend sléttubönd.

Rímuð bæði utan á

og innan þessi staka,

lesum hana framan frá

og förum svo til baka.

 

Afmæliskveðja til vinar.

Söngvari er síkátur og sögufróður,

Vigfús snjallar vísur kveður,

vini sína alltaf gleður.

 

Nafnar tveir yrkja á Boðnarmiði og heita báðir Hallmundur.

Hallmundur og Hallmundur um tíma

hafa ákaft baukað við að ríma.

Sumum þykir þetta mikið undur

og þekkja ekki kumpánana sundur.

Málið er þó ekki svona snúið,

einungis er svo um hnúta búið

að annan þeirra kenna má við Krist

(því kannski hefur einhver þráðinn misst).

Hlægilegar limrur oft hann yrkir

og alltaf með því geðheilsuna styrkir.

Hinn er sá sem hefur nafnið Guð

og hagyrðingum mörgum eykur stuð.

Með velþóknun þá Bragi lítur báða

boðnarmjöðinn síþambandi snáða.

 

Karlakórinn Ernir heimsótti Karlakór Reykjavíkur og var boðin kjötsúpa. Gerðist af því gleðskapur.

Reffilegur karlakór

kom hingað að vestan,

við kjötsúpu og kaldan bjór

að kvöldi dagsins sest hann.

 

Gulrætur og korn og kál

í kjötsúpu skal hafa,

svo er best að bjóða „skál!“

og bergja gullinn safa.

 

Saman hérna syngja tveir

sveina kátir flokkar,

fátt annað en músík meir

magnar gleði okkar.

 

Hallmundur Kristinsson yrkir limrur í löngum bunum, ein var um Leif sem fór til læknis.

Leifur sem djöful sinn dragandi

var drifinn til læknis síklagandi

en mest fékk þó á

hann er mætti hann þá

Hallmundi limrurnar lagandi.

 

Úr umræðu um álitamál í bragfræði. Einhver var á móti stuðlum og það munaði svo litlu að hann talaði í bundnu máli að ég sneri því í vísu.

Þegar þinn hljómur og hrynjandi við

hlustir okkar gælir

þá er það aukaatriðið

hvort eitthvað í ljóðstöfum mælir.

 

Svartþröstur

Sæll og kátur syngur þar hinn svarti þröstur,

oft í mínum garði gestur,

góðvinurinn allra bestur.

 

Heilsuræktarvísur

Heilsusamlegt hlaupið er

en hollara og betra

mun að skella í sundlaug sér

og synda þúsund metra.

 

Mörgum eflaust gera gott

gömul jógafræði,

heldur kýs þó heitan pott

og hugsa þar í næði.

 

Já, það er margt og mikið hægt

og mikilvægt að vanda

lífið sjálft og leggja rækt

við líkama og anda.

 

Þegar Bjarki Karlsson fékk bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Boðnarmiði Bjarki jós

og bauð oss lengi glaður,

kappa þarna hlotnast hrós

og heiður verðskuldaður.

 

Í textavarpinu kom frétt um verðlaunin en það vantaði aftan á fyrirsögnina þannig að hún hljóðaði: „Bjarki hlaut bókmenntaverðlaun Tóma“.

Ævinlega álits naut

og alltaf var til sóma,

best var þó að Bjarki hlaut

bókmenntaverðlaun Tóma.

 

Morgunverðarvísur

Nú í morgun epli át

og appelsínu holla.

Hjónin fóru á fætur kát

og fengu kaffibolla.

 

Rúnnstykki og ristað brauð

með rabbarbarasultu

minni frú og börnum bauð

sem beint úr rúmi ultu.

 

Morgunverðarvísur kveð

og vanda mig að yrkja,

lestu þær og lýsi með

láttu kroppinn styrkja.

 

Afmælisvísur til Höskuldar Búa

Höskuldur er heillakall

og hleypur gæfuleiðir

margar vísur sníður snjall

og snarlega fram reiðir.

 

Vinur okkar, Braga bur,

bögusmiður laginn,

heillakarlinn Höskuldur,

til hamingju með daginn!

 

Ort nýkominn frá tannlækni

Gulltönn sést í gini mér

þá glottið á mér sýni,

þarna líka önnur er

öll úr postulíni.

 

Haustvísa

Það er ekki alveg laust

við agnarlítinn kvíða

í fólki þegar fram á haust

farið er að líða.

 

Félagi kvartaði undan að ekkert væri til að borða meðan konan var í burtu.

Þá eru það bara reglurnar

þegar að burt eru kerlurnar,

skófirnar skafa

skaltu og hafa

í matinn að naga á þér neglurnar.

 

Kristján Hreinsson skrifaði í Fréttablaðið til að skammast yfir illa ortum limrum í sama blaði.

Já, limrur er vandi að laga

svo líki það góðvinum Braga;

ambögustaut

og stuðla í graut

skal stranglega banna og klaga.

 

Rigningarsumar

„Sumarið kom yfir sæinn“

sungum við vonglöð einn daginn

öll í kór

meðan ofsalegt fór

rigning og rok yfir bæinn.

 

Jósefína Dietrich hældist um af að hafa veitt ferlega fiskiflugu.

Blessuð fiskiflugan sá

feigðina að sér steðja,

litla krúttið þurfti þá

þetta líf að kveðja.

 

Vísa í góðu veðri

Yndisblíða! Af ást ég brenn

og öðlast gleði slíka

að elska skal ég alla menn

og alþingisfólkið líka.

 

Rigningarblús

Ég raula minn rigningarblús

meðan regnið ber utan mitt hús

það setur að kvíða

því sumarið blíða

sæta og fríða

lætur eftir sér bíða

meðan árin hjá líða

ég raula minn rigningarblús

rassblautur tóm er mín krús

liggjandi víða,

það er logn milli hríða

stund milli stríða

og stormurinn lemur mitt hús

meðan raula ég rigningarblús

ísskápur tómur

og allt er barlómur

lífið þrældómur

ég er snúðugur svekktur og snauður

svo er vinnan í pati

og vinur minn Snati

er dauður

en kannski að lokum ég komi út í plús

ef ég bara raula minn rigningarblús.

 

Svar við orðaleik um kjósendur í Kjós.

Þarna rann upp lítið ljós

loksins fyrir snáða,

öllu saman uppí Kjós

endur fá að ráða.

 

Morgunvísa

Nú um mæta morgunstund

maður gæti bæði

aðeins brugðið sér í sund

og samið lítið kvæði.

 

21. júní, skoraði ég á fólk að yrkja vísu í tilefni af sumarsólstöðum.

Sól er hæst á himni í dag,

heiðríkja og stilla;

núna ætti að efna í brag

og yndissunnu hylla.

18.12.2013 14:55

Montaigne - bloggari á 16. öld

 

Stundum hef ég sagt við vini mína að helst vildi ég búa í turni. Mín fyrirmynd í lífinu er Tóbías í turninum. Turnbúi getur horft á mannlífið ofan frá og er ekki niðursokkinn í allan þennan hversdagslega hégóma. Þessvegna er ég veikur fyrir vitum; á ferðalögum um landið þarf ég helst að taka á mig krók til sjá vitana (þeir eru ekkert alltaf í alfaraleið þannig að það getur verið snúið). Ef ekki fæst viti vildi ég byggja turn ofan á húsið mitt. Einstaka gömul hús í Reykjavík hafa einhverskonar turn og ég er líka hrifinn af þeim. Hann þyrfti ekki að vera stór. Einn millipallur í vita væri yfrið nóg. Þar mætti koma fyrir sæmilegu bókasafni, ritvél og kaffivél. Meira þyrfti varla.

Nú hef ég kynnst manni sem gerði nákvæmlega þetta, Michael de Montaigne (1533–1592). Hann tók þátt í stjórnmálum sinnar tíðar sem voru átakamikil því trúarbragðadeilur geisuðu um alla álfuna. Þegar hann var 38 ára hélt hann að hann myndi ekki lifa mikið lengur og kom sér fyrir í turni við ættaróðal sitt. Þar hafði hann bókasafn sitt og tók til við að skrifa um allt sem honum datt í hug með því yfirlýsta markmið fara ekki eftir öðru en eigin hyggjuviti. Hann skrifaði ekki langar bækur. Ritgerðin var hans form, stuttir textar, yfirleitt bara nokkrar, blaðsíður um eitt ákveðið efni en frjálsræði til að tengja það við hvað sem höfundinum dettur í hug. Þetta er eiginlega sama form og bloggið er nú. Ef Montaigne væri núna að koma sér fyrir í turninum þá færi hann að blogga.

Það er unun að lesa þetta. Hann tekur fyrir allskonar merkileg efni, ritgerðirnar heita til dæmis: „Um staðfestu“, „Um ótta“, „Um mátt ímyndunaraflsins“, „Um svefn“, „Um góð markmið og vond meðöl“ o.s.frv. Oft byrjar hann á að tala um hvað fornmenn sögðu um efnið enda var hann þar vel að sér, hann hafði lært latínu áður en hann lærði móðurmálið. Á sama aldri og ég stautaði Gagn og gaman rökræddi hann um Cicero við lærdómsmenn. Svo tekur hann dæmi úr eigin lífi og úr samtíma sínum og bregður þá upp skemmtilegum smámyndum af mannlífi á 16. öld. Mest er þó varið í hvað hann er heiðarlegur út í gegn, hreinn og beinn, jarðbundinn. Það er til dæmis merkileg ritgerð um mátt vanans þar sem hann færir rök fyrir að margt sem við teljum fyrirskrifað af náttúru eða guði sé í raun vani. Svo er merkileg ritgerð um uppeldi þar sem hann heldur fram svipuðum skoðunum og Roussoeau og Kant. Maður sér hvernig hugmyndir upplýsingarinnar gerjuðu þegar á endurreisnartímanum.

Montaigne er nú minn uppáhaldshöfundur og sálufélagi. Ég hefði átt að kynnast honum fyrr, ég hef lengi vitað af honum og eiginlega er skömm að hafa ekki farið á hans fund fyrr en nú. 


Myndin fyrir ofan er af turninum þar sem Montaigne sat og skrifaði ritgerðir sínar; hún er fengin að láni frá Wikipediu.

13.12.2013 04:02

Kennari og kerfið

Eiginlega ætlaði ég að hætta að blogga um skólamál. Svo kemur í ljós að eftir að hafa starfað í skólum þá hverfa þeir ekki úr huganum í einni svipan. Allavega hef ég setið hugsi yfir tveim málum sem undanfarið hafa ratað í fréttir. Það eru algjörlega ólík og óskyld mál. Samt tengjast þau saman í huga mér - mér finnst þau varpa birtu úr ólíkum áttum á sama vanda.

Annað er niðurstöður úr nýjustu PISA könnun sem kynntar voru um daginn og slök útkoma Íslendinga, sér í lagi drengja. Nú hef ég lesið ýmislegt sem fólk hefur að segja um þessar niðurstöður. Flestir sjá þær sem staðfestingu á sinni eigin skoðun. Viðbrögðin við PISA könnuninni eru yfirleitt: „þetta sannar einmitt það sem ég hef alltaf sagt“. Helst vildi ég segja það sama, sérstaklega um náttúrfræði­kennsluna á yngri stigum sem er áhugamál mitt. Kannski skrifa ég bráðum sérstakt blogg um hvað ég les út úr PISA um náttúrufræðikennslu.

Hitt málið er saga eins manns. Ragnar Þór Pétursson sagði opinberlega frá nú um daginn að hann sé hættur að kenna hjá Reykjavíkurborg og hvers vegna. Ragnar hefur getið sér gott orð sem kennari, ekki síst út af blogginu sínu. Þar skrifar hann oft um skólamál og alltaf hefur hann eitthvað gott til málanna að leggja. Ég hef fylgst með honum sérstaklega vegna þess að hann hefur að sumu leyti sömu áhugamál og ég, þ.e.a.s. náttúrufræði og heimspeki í grunnskóla. Samstarfsfólk ber honum vel söguna, foreldrar og nemendur lofa hann einum rómi.

Sagan er furðuleg, hún gengur fram af fólki eins og sjá má af vibrögðum lesenda. Samt kemur hún ekki beinlínis á óvart. Við þekkjum andrúmsloftið sem hún gerist í. Eitthvað svona hlaut að gerast. Kannski hefur það gerst áður án þess við fréttum af. Í sem stystu máli hóf skólamálaskrifsofa Reykjavíkur umfangsmikla rannsókna á því hvort einhversstaðar væri hægt að finna eitthvað misjafnt um Ragnar og þá sérstaklega hvort hann hefði orðið uppvís að einhverju kynferðislega óviðeigandi gagnvart börnum. Miðað við þær heimildir sem fram eru komnar er svo að sjá sem skólamálaskrifstofan, eða einstakir yfirmenn hennar, hafi fundið upp á þesssu hjá sjálfri sér. Allavega er tilefnið sem hún vísar í svo óljóst að það er ekki hægt að taka það alvarlega, það er „nafnlaus ábending, almennt orðuð“ og í ljós kemur að hún er tilhæfulaus með öllu. Það var farið í gegn um sakaskrá, í gegn um málaskrá lögreglu og haft samband við barnaverndarnefndir. Meðan þeir sem fyrir þessu stóðu geta ekki bent á neina boðlega ástæðu fyrir umstanginu álykta ég að tilgangurinn hafi frá upphafi verið að koma höggi á manninn.

Tilgáta mín er þessi: Kerfið þolir ekki hugsjónamenn sem vilja breyta. Þegar þeir beinlínis byrja að breyta einhverju eru þeir hraktir burt. Skólakerfið okkar er bákn sem lifir eigin lífi. Það er stórt dýr, hvalur eða risaeðla, sem hugsar um sjálft sig og annað ekki. Það hugsar ekki um hag nemenda eða foreldra eða samfélagsins. Allra síst hugsar það um menntun. Skólakerfið er risaeðla sem hugsar bara um að fá sjálf nóg að éta. Enginn einn einstaklingur ræður við þetta kerfi, ekki einn stakur kennari, ekki yfirmaður skólamálaskrifstofunnar, ekki einu sinni menntamálaráðherra. Kerfið þarf á fólki að halda sem gerir allt eins og alltaf hefur verið gert. Þannig viðhelst kerfið. Þegar inn í kerfið slysast einstaklingar sem hugsa um eitthvað annað en viðgang kerfisins, til dæmis einhver með hugsjón um menntun, eða þegar einhver fer að prófa að gera hlutina öðruvísi, þá kviknar á varnarviðbrögðum. Kerfð notar tiltæk ráð til að losna við þennan einstakling. Dýrið skyrpir honum út úr sér.

*   *   *

Ragnar skrifaði tvær greinar um söguna, þær má nálgast með því að smella á bláu stafina. Önnur heitir Sagan öll og er lengri og ýtarlegri. Hin er styttra ágrip þess sama og heitir Kaflaskil.

 

08.12.2013 16:01

Jólaundirbúningur á Skjólbraut

Þessi svarta kanína heldur til í garðinum okkar þessa dagana. Hún er þó gamall kunningi því ég hef séð hana á vappi í Borgarholtinu og í kring um Gerðarsafn frá því í sumar. Alltaf er hún ein og fleiri kanínur hef ég ekki séð á þessum slóðum svo líklega er ekki kominn neinn kanínustofn í Kópavogi. Hún virðist bjarga sér sæmilega þótt snjór sé yfir. Þegar ég náði þessari mynd nú áðan var hún að kroppa grasstráin sem stingast upp úr snjónum. Mér sýndist hún líka narta í runnana okkar. Henni var gefin gulrót og gerði sér hana að góðu en át líka brauðmola og annað kornmeti sem ætlað var smáfuglunum.

Þetta finnst mér jólalegt. Reyndar finnst mér allt jólalegt í dag. Nú er ég nefnilega kominn í jólaskap. Það er vegna þess að í morgun söng kórinn í messu í Hallgrímskirkju eins og hann gerir alltaf annan sunnudag í aðventu. Þá eru sungnir aðventusálmar og valin lög úr jólaprógramminu sem flutt verður á jólatónleikum um næstu helgi. Einhver annar kór hafði verið á pöllunum í gær og skilið eftir nótur og tambúrínu á stjórnandapúltinu. Þegar kom að því syngja „Hefjum upp augu og hjörtu með“, sem er með hressilegum danstakti, greip stjórnandinn tambúrínuna og sló taktinn með henni við undirleik orgelsins. Hafi fólk ekki verið komið í jólaskap dugði þetta til.

Áður en ég mætti í sönginn hafði ég farið snemma á fætur, farið í sund og synt þúsund metra og var sæmilega ánægður með afrek mín fram að hádegi. Núna seinni partinn er hafinn smákökubakstur á heimilinu. Svo er búið að kveikja á kertum og setja upp jólaljósin þannig að nú fara að koma jól.

29.11.2013 10:51

Rokkóratoría - partarnir og heildin

Það var geggjað stuð í Hörpu í gær. Þungarokkshljómsveitin Skálmöld og Sinfóníuhljómsveitin sneru bökum saman og fengu til liðs besta blandaða kór landsins, Hymnodíu, besta barnakórinn, Skólakór Kársnesskóla, og besta karlakórinn, Karlakór Reykjavíkur. Skálmöld lét heyra hvað rokkhljómsveit getur gert, Sinfónían gerði það sem hún gerir best. Þegar báðar hljómsveitir féllust í faðma og spiluðu saman varð til ný og áður óþekkt eldfim blanda með gríðarlegan sprengikraft. Barnakórinn bætti viðkvæmnislegum sakleysistón í blönduna, Hymnódía víkkaði tilfinningaskalann í allar áttir og Karlakórinn setti fítonskraft í allt saman. Svo munaði ekki minnst um að í salnum sátu réttir áheyrendur, fólk sem hefur hlustað á plöturnar og kunni vel að meta þessa útvíkkun á uppáhaldstónlist sinni. 

Þetta ætti að heita óratoría. Óratoría er skilgreind í uppflettiritum sem stórt tónverk fyrir kór, hljómsveit og einsöngvara sem segir sögu án þess að vera kirkjulegt (eins og kantata). Aðalstjarna kvöldsins, fannst mér, var útsetjarinn, Haraldur V. Sveinbjörnsson. Hann skrifaði allar nóturnar handa kórunum og hljómsveitinni svo hugvitssamlega að útkoman er risatónlist: þungarokk og sinfónía renna saman, það má heyra áhrif frá Jóni Leifs og Ennio Moricone, frá norrænum og gelískum þjóðlögum. Ég þarf eiginlega að kynnast þessum manni til að bera undir hann hugmyndina um rokkkonsertinn sem ég hef lengi heyrt fyrir mér og sem ég bloggaði um fyrir löngu.

Þessu var ég með í sem söngvari í Karlakórnum. Flytjendur voru um eða yfir 200, þannig að ég hef verið svona hálft prósent þeirra. Samt er ævintýri að vera með í svona verkefni. Síðasta vor kom þetta til tals og kórinn var strax til í að vera með. Í haust fengum við nótur með okkar parti. Við fyrstu sýn virtist það auðvelt: Engar erfiðar línur eða óvenjuleg tónbil. Brátt kom þó í ljós að mesti vandinn fyrir kórinn yrði að falla inn í heildarverkið. Á venjulegum kórtónleikum treystir hver söngvari á nokkra hluti: í fyrsta lagi að kórstjóri gefi tóninn (ef þið farið á kórtónleika munuð þið geta heyrt hvernig stjórnandinn syngur fjóra tóna á undan hverju lagi; það er til að hver söngvari viti hvar hann á að að byrja), þetta er mjög mikilvægt, annars fer allt í vitleysu. Í öðru lagi treystir söngvarinn á að heyra í kórfélögum sínum. Einstaka sinnum gerist að sungið er í húsum með litlum hljómburði, eða undir berum himni, og þá heyrir maður ekki í hinum. Þá er eins gott að vita hvað maður á að gera. 

Ekkert af þessu var til staðar í gær. Ef allt um þrýtur heyrir maður vanalega í sjálfum sér, en á þungarokkstónleikum er ekki einu sinni hægt að treysta á það. Það er svo mikið um að vera á sviðinu að enginn hefur ráðrúm til að gefa karlakórnum tóninn. Allt er magnað upp og hátalarar snúa út í salinn. Á bak við sviðið, þar sem kórinn stendur, heyrist ekki það sama og áheyrendur í salnum heyra. Kórinn heyrir mest í trommusettinu. Meðan kórinn æfði í haust fór stjórnandinn eftir partitúr frá útsetjara og sagði eitthvað svona: þið heyrið tóninn ykkar í kontrabassanum. En þegar á hólminn er komið heyrum við lítið í kontrabassanum. Í slíkum aðstæðum myndu sumir kórar fara út af laginu. En besti karlakór landsins ræður við þetta, kemur alltaf inn á réttum stað og alltaf á réttum tóni.

Tónleikarnir verða endurteknir í kvöld, og ég heyrði frá Skálmaldarfélaga að þá myndu dyggustu aðdáendur mæta og þá yrði enn meira stuð, og svo enn aftur á morgun. Eftir það verður gott fyrir Karlakórinn að fara að syngja jólalögin og yfirleitt gera það sem hann er bestur í. 

22.11.2013 16:27

Krónprinsinn af Íran og ég

 

Daginn sem ég fæddist kom í fréttum að þá sömu nótt hefði fæðst prins austur í Íran. Ég á ekkert sameiginlegt með þessum manni nema fæðingarstundina. Út af henni einni hef ég þó alltaf verið forivitinn um hann. Hann hefði orðið keisari í Íran ef ekki hefði verið gerð bylting í landinu hans 1979. Þá var ég í menntaskóla en hann í Bandaríkjunum að læra að verða orrustuflugmaður. Síðan hefur hann ekki stigið fæti á íranska grund. Hann er virkur í samtökum íranskra útlaga. Hann er á móti klerkastjórninni sem nú ríkir þar, talar fyrir frjálsum kosningum og mannréttindum. Hann er tortrygginn á núverandi forseta, Hassan Rouhani, sem margir á Vesturlöndum hafa tekið sem talsmann frjálslyndis í Íran. Hann er algerlega á móti því að kjarnorkuáætlun Írans verði stöðvuð með hernaðaríhlutun, segir að það muni aðeins seinka henni um nokkur ár en gera endanlega úti um alla stjórnarandstöðu í landinu. Sjálfur mætir hann tortryggni vegna uppruna síns. Faðir hans, keisarinn í Íran, var ekki beinlínis mannréttindafrömuður. Þegar hann er spurður út í þetta segist hann fordæma öll mannréttindabrot en bætir við: „Ég er bara ég, ég er að tala um framtíðina“.

Ég veit ekki hvað stjörnuspeki myndi segja um okkur tvo. Líklega væri það ekkert merkilegt því fæðingarstund tveggja manna tengir þá ekki á nokkurn hátt. Ég veit það vel, en samt finnst mér eitthvað spennandi við að bera sjálfan mig saman við þennan mann sem hefur hlotið allt önnur örlög en honum voru talin vís í vöggu.

Hér er slóð á heimasíðu Reza Pahlavi. Þar má m.a. sjá nýlegt „hard talk“ viðtal við hann á BBC þar sem rætt er um ástandið í Íran og hans eigin stöðu:

http://www.rezapahlavi.org/

05.11.2013 14:33

Tónlist og aðrir töfrar í ljóðum

Hér syngur Kiri Te Kanawa Du bist wie eine Blume eftir Schumann, ljóð eftir Heine. Oft hef ég minnst á dálæti mitt á Heine – og er auðvitað ekki einn um það, Fjölnismenn héldu upp á hann og helstu skáld hafa spreytt sig á að snúa ljóðum hans á íslensku. Þetta litla ljóð hefur verið þýtt oftar en einu sinni. Í augnablikinu hef ég enga þýðingu tiltæka en ég get sagt ykkur að enn hefur ekki tekist að yrkja það upp á íslensku þannig að allir töfrar þess skili sér.

Mér virðist sem töfrarnir liggi í þrennu: Í fyrsta lagi tjáir það fallega og göfuga hugsun, í öðru lagi er hugsunin sett fram í einföldum orðum; í þriðja lagi hljómar tónlist í ljóðinu, hrynjandi, rím og endurtekningin á fyrstu línu. Þegar þetta ljóð er þýtt á íslensku er möguleiki að reyna að koma tveimur þessara atriða til skila en aldrei öllum þremur. Þegar lagið eftir Schumann bætist við og söngur sem varla virðist á færi dauðlegra manna er komið eilíft listaverk.

 

Hér kemur ljóðið og fyrir neðan mín eigin lausamálsþýðing sem er eiginlega hryllileg afskræming því í hana vantar töfra númer þrjú, nefnilega tónlistina í orðunum, og þá er spurning hvort hinir töfrarnir eigi nokkra möguleika á að virka.

 

Du bist wie eine Blume
So hold und schön und rein;
Ich schau' dich an, und Wehmuth
Schleicht mir ins Herz herein.

Mir ist als ob ich die Hände
Aufs Haupt dir legen sollt',
Und beten, daß Gott dich erhalte
So rein und schön und hold.

 

Þú ert eins og blóm
svo yndisleg, fögur og hrein;
ég horfi á þig og söknuður
læðist inn í hjarta mitt.

Mér finnst eins og ég eigi að leggja hendur
á höfuð þér
og biðja að Guð varðveiti þig
svo hreina og fagra og yndislega.

29.10.2013 15:25

Það sem galdramaðurinn sagði

Ég ætlaði endilega að segja frá enska töframanninum Richard McDougall áður en ég gleymi því. Fyrir mig var heppni að kynnast honum. Það er ekkert á hverjum degi að maður hittir einhvern sem manni finnst heppni að kynnast og ástæða til að staldra aðeins við skrifa um það lítið blogg.

Richard er skemmtikraftur á heimsmælikvarða. Hans sérgrein er að sýna töfrabrögð í litlum hópum þar sem áhorfendur standa nálægt. Hann kemur semsagt ekki fram í stórum leikhúsum eða í sirkús. Í kynningarefni um hann má lesa að hann hefur skemmt gestum í einkasamkvæmum hjá Bretlandsdrottningu, krónprinsinum, Paul McCartney og fleira frægu fólki. Auk þess er hann vinsæll fyrirlesari í atvinnulífinu þar sem hann miðlar af reynslu sinni í sérgrein töframannsins, að halda athyglinni.

Lítill klúbbur áhugamanna bauð þessum manni að koma hingað. Það var nóg að segja „Ísland“ og þá var hann til í að koma. Klúbburinn borgaði far með lággjaldaflugfélagi og gistiheimili í úthverfi en annars tók hann ekkert fyrir, hann gerði það bara fyrir ánægjuna. „Mig hefur alltaf langað að koma til Íslands“, sagði hann. Fyrir utan að skemmta á töfrakvöldinu, sem var aðalerindið, hafði hann námskeið tvö kvöld fyrir Íslendingana.

Fyrra kvöldið flutti hann fyrirlestur um list töframannsins og benti á gamanleikara þöglu myndanna sem fyrirmyndir: Harold Lloyd, Buster Keaton og Chaplin. Síðara kvöldið var nokkurskonar masterclass þar sem við Íslendingarnir sýndum okkar efni og hann benti á leiðir til að betrumbæta. Eftir það var farið á krá í miðbænum þar sem hann fékk te og áfram var haldið að tala um töfrabrögð.

Þegar ég hitti hann fyrst í anddyrinu heilsaði hann með handabandi, spurði að nafni og kynnti sig. Þetta litla atriði var hluti af boðskap hans: Ef þú færð áhorfanda upp á svið (eins og töframenn gera oft) skaltu taka í höndina á honum og ekki byrja á atriðinu fyrr en þú ert viss um að áhorfandanum líði vel.

Hann spurði hvernig hefði viljað til að ég byrjaði á þessu og ég sagði frá hvernig ég rakst á litla bók með einföldum töfrabrögðum þegar ég var tíu ára og var á kafi í þessu sem táningur en lagði þetta til hliðar þegar stóru verkefni lífsins tóku yfir. „Mér finnst frábært að þú sért kominn aftur,“ sagði hann, „það sýnir að tíu ára strákurinn er þarna ennþá“. Eftir að hafa horft á atriðið mitt á töfrakvöldinu hvatti hann mig til að halda áfram. „Þú hefur það sem til þarf,“ sagði hann. „Þú ert með góðar hugmyndir, það var stemning í atriðinu og fólk langar að horfa á þig, fólki líður vel nálægt þér. Það eru ekki brellurnar sem þú gerir sem skipta mestu máli. Galdurinn er ekki í brellunum, galdurinn er í þér, þú ert með hann.“

Vafraðu um

Eldra efni

Tenglar